Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu standa frammi fyrir gríðarlegri tekjuskerðingu vegna afleiðinga COVID-19 faraldursins og á sama tíma hefur þörfin fyrir þá nærþjónustu sem þau veita sjaldan, eða aldrei, verið jafn mikil. Auknar lántökur myndu hafa langvarandi og lamandi áhrif á skóla- og félagsþjónustu og sveitarfélögin vilja óendurkræf fjárframlög úr ríkissjóði og lánsfé á hagkvæmum kjörum. Verði ekkert að gert gætu þau þurft að nýta sér hlutabótaleiðina.
Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, SSH, sendu frá sér minnisblað fyrr í vikunni þar sem fram koma niðurstöður greininga fjármálastjóra sveitarfélaganna á áhrifum faraldursins á fjárhag þeirra og þjónustu. Gangi þær eftir verði rekstur sveitarfélaganna ósjálfbær um langan tíma og verði ekki leystur nema með miklum lántökum og niðurskurði í þjónustu sveitarfélaganna, nema til komi ríkisaðstoð.
Minnisblaðið var sent Bjarna Benediktssyni fjármála- og efnahagsráðherra og undir það skrifa bæjarstjórar og borgarstjóri þeirra sveitarfélaga sem aðild eiga að samtökunum en það eru Reykjavíkurborg, Kópavogsbær, Hafnarfjarðarkaupstaður, Garðabær, Seltjarnarneskaupstaður, Mosfellsbær og Kjósarhreppur.
Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri í Mosfellsbæ, segir ljóst að sveitarfélögin muni verða fyrir miklu tekjutapi. Margir óvissuþættir séu og erfitt að átta sig á heildarmyndinni á þessum tímapunkti. „Við í Mosfellsbæ eigum til dæmis ekki von á að íbúum muni fjölga jafn mikið í ár og við höfðum gert ráð fyrir og þá verða tekjur af gatnagerðargjöldum minni en við höfðum áætlað. Og það er alveg ljóst að sveitarfélögin munu verða fyrir talsverðum kostnaðarauka, haldi þau áfram úti þeirri þjónustu sem þau gera nú,“ segir Haraldur.
Í minnisblaðinu kemur fram að í fyrstu hafi verið talið að höggið myndi standa í stuttan tíma, eða þrjá til sex mánuði. Greiningarnar hafi leitt í ljós að djúp niðursveifla verði í níu til tólf mánuði og að áætla megi að útsvarstekjur og tekjur frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga lækki um það sem nemur 130.000 á hvern íbúa á höfuðborgarsvæðinu samanlagt í ár og á næsta ári. Þessi upphæð nemur því að tekjur þessara sveitarfélaga myndu lækka um 30 milljarða. Því til viðbótar er tekjulækkun vegna niðurfellingar þjónustugjalda sveitarfélaga vegna leik- og grunnskóla og fjármagnskostnaður og aukinn þungi afborgana vegna tekjusamdráttar og kostnaðarauka, auk fjármögnunar aðgerða, eins og frestun fasteignagjaldatekna.
Meira á hvern íbúa vegna velferðarþjónustu
Í minnisblaðinu er áætlað að hækkun framlaga til velferðarþjónustu, þar með talinnar félagslegrar þjónustu, fjárhagsaðstoðar og vegna húsnæðisbóta, verði að minnsta kosti 8 milljarðar króna í ár og á næsta ári. Það eru um 35.000 krónur á hvern íbúa á höfuðborgarsvæðinu. Þá segir að gangi spár um aukið atvinnuleysi eftir sé ljóst að kostnaður vegna þessara þátta muni áfram verða hár á komandi árum.
„Áætla má að útsvarstekjur og tekjur frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga lækki um 130.000 á hvern íbúa samanlagt í ár og á næsta ári“
Minni byggingarumsvif hafi áhrif á tekjur af byggingaréttargjöldum og gatnagerðargjöldum á öllu höfuðborgarsvæðinu. Ekki liggur fyrir nákvæm greining á þessum þætti en í Reykjavík, Mosfellsbæ og Hafnarfirði er gert ráð fyrir því að samtals muni þessar tekjur lækka um 15 milljarða króna, að stærstum hluta í Reykjavík á fyrrgreindu tímabili.
Mikill tekjusamdráttur Strætó og Sorpu
Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu reka saman byggðasamlögin Strætó bs. og Sorpu. Hjá báðum samlögum hefur orðið talsverð tekjulækkun það sem af er ári, hjá Strætó nemur hún 500 milljónum í ár en þar hefur ferðum verið fækkað um 60%. Verulegt tekjutap er fyrirsjáanlegt hjá Sorpu vegna minnkandi umsvifa á höfuðborgarsvæðinu. Sveitarfélögin bera einnig kostnað við almannavarnir á svæðinu og hefur hann aukist umtalsvert vegna faraldursins.
Haraldur segir að gera megi ráð fyrir því að sveitarfélögin muni þurfa að efla félagsþjónustu sína talsvert, en ekki sé hægt að áætla nú hversu mikið eða á hvaða sviðum. Erfitt sé að sjá hvernig sveitarfélögin eigi að geta nýtt sér hlutabótaleiðina á sama tíma og aukin þörf sé fyrir þjónustu þeirra.
„Það fer örugglega illa saman. En byggðasamlögin okkar, Sorpa og Strætó, eru reyndar þegar farin að nýta sér þessa leið að einhverju leyti. Það hefur dregið það mikið úr þjónustu þeirra,“ segir Haraldur. Hann segir að það hafi ekki komið til tals á vettvangi SSH að fækka starfsfólki sveitarfélaganna: „Nei, það hefur ekki verið rætt.“
Í minnisblaðinu segir að sveitarfélögin hafi verið hvött til þess að láta fjárfestingaáætlanir ganga eftir og helst flýta eða auka við framkvæmdir. Framkvæmdaáætlanir sveitarfélaganna gera ráð fyrir að fjárfesta fyrir um 52 milljarða króna á höfuðborgarsvæðinu í ár og með auknu fjármagni og flýtingum um 55 milljarða króna. Samtals eru þetta um 110 milljarða króna fjárfestingar sveitarfélaga og fyrirtækja þeirra á árunum 2020 og 2021.
Langvarandi og lamandi áhrif
Haraldur segir líklega allan gang á því hvort sveitarfélögin geti aukið við eða flýtt framkvæmdum. „Í Mosfellsbæ eru reyndar fordæmalausar framkvæmdir á þessu ári, fyrir um það bil þrjá milljarða, og við höfum einfaldlega ekki möguleika á að framkvæma meira. Við höfum aftur á móti flýtt viðhaldsframkvæmdum, til dæmis sinnt viðhaldi á íþróttamannvirkjum á meðan þau hafa verið lokuð, en það hefðum við annars gert í sumar.“
Í minnisblaðinu segir að verði efnahagslegum áhrifum af faraldrinum velt yfir á fjárhag sveitarfélaganna með stóraukinni lántöku sé tvennt ljóst: Í fyrsta lagi myndi það hafa „langvarandi og lamandi áhrif á skóla- og velferðarþjónustuna við íbúa vegna þeirrar hagræðingar og niðurskurðar sem slíkar skuldir, vaxtakostnaður og afborganir myndu hafa í för með sér. Í öðru lagi væri sveitarfélögunum ekki fært að taka þátt í því viðnámi, hvorki í veittri þjónustu, vinnumarkaðsaðgerðum eða verklegum framkvæmdum sem þarf til að samfélagið komist hratt á nýjan og betri stað, með auknum umsvifum og atvinnu um leið og faraldurinn leyfir,“ eins og segir í minnisblaðinu.
Athugasemdir