„Fyrir níu árum missti ég allt. Veikindi mín gerðu ekki vart á undan sér. Ég var þrjátíu og tveggja ára og drengurinn minn tveggja ára. Ég gekk út af heimili okkar með eina tösku, frá barnsmóður minni, börnum hennar og syni mínum, frá vinnu og skóla. Ég fór út að ganga. Það var einhverskonar orka sem leiddi mig áfram. Allt mitt líf breyttist á tveim dögum.“
Mamma bjargaði fjölskyldunni fyrir horn
„Ég hef alltaf gengið mikið,“ segir Guðjón, en sem unglingur gekk hann oft og iðulega fótgangandi heiman frá sér úr Bústaðarhverfi í sjoppuna þar sem mamma hans stóð vaktina í í Breiðholti. „Ég var að auðvitað að suða nammi en líka að hitta besta vin minn sem bjó skammt frá sjoppunni.“ Besti vinurinn og Guðjón þóttu ódælir í skóla og í unglingadeild var tekið á það ráð að aðskilja þá félaga, tilgangurinn var að hemja drengina, aðgerð sem gerði illt verra,“ segir Guðjón.
Guðjón var samviskusamur nemandi framan af og lagði sig fram við að standa sig í náminu en verandi unglingur í níunda bekk snerist skólinn á móti honum frekar en að styðja hann og skólatilvistin trosnaði upp í tilgangsleysi sínu. Aðstæður Guðjóns gátu ekki samlagast skorðum skólans sem gaf ekkert eftir.
„Mamma vann fyrir fjölskyldunni baki brotnu“
„Ég er yngstur okkar þriggja bræðranna, og mamma vann fyrir fjölskyldunni baki brotnu. Við sáum ekki mikið af henni, hún var oftast nær í tveim vinnum og við bræðurnir höfðum ofan af okkur sjálfir sem gat verið frekar villt. Óhjákvæmilega hefur þetta verið erfitt hjá henni. En með seiglu sinni tókst henni að bjarga fjölskyldunni fyrir horn. Stundum ansi tæpt, það kom varla sú kreppa að mamma missti ekki húsnæði sitt og neyddist til að flytja á ný. Ég kláraði ekki grunnskólann á tilskyldum tíma, ég fór reyndar ekki aftur í skóla fyrr en í framhaldsnám langt komin á þrítugsaldurinn kannski líka til þess að sanna að ég gæti lært. Yfirmaður minn í prentsmiðju, þar sem ég vann, hélt því fram að ég gæti ekki lært en verkstjórinn minn var á annarri skoðun og hvatti mig áfram og ég kláraði prentiðnaðarnám og hélt síðan áfram námi í stjórnunar- og markaðsfræði en ég var að lesa þau fræði með vinnu þegar ég veiktist.“
Atvikið
„En það sem gerðist fyrir níu árum. Ég keyrði í átt að þessu fjalli og steig út úr bílnum og fór af stað fótgangandi. Ég gekk stanslaust í tvo daga.“ Guðjón lýsir þessu eins og hann hafi ekki sjálfur verið við stjórn heldur yfirnáttúrulegt afl eða orka hafi leitt hann áfram. „Ég veit ekki af hverju þetta fjall varð fyrir valinu en ég varð að komast þangað það var eins og ég væri leiddur áfram af alheimsorku.“
Guðjón gekk stanslaust í tvo sólarhringa og drakk vatnið af pollunum á jörðinni. Orkan leiddi hann áfram og hann fann aldrei fyrir því að hann væri í hættu staddur. Eftir tveggja daga stanslausa göngu var hann sóttur með þyrlu á Hvannadalshnjúk og honum flogið beina leið inn á Geðdeild og hann lyfjaður niður. „Við læknisskoðun var ég líkamlega vel á mig komin allt nema fæturnir sem ég hafði nánast gengið af mér.“ segir Guðjón. Á tveim dögum tók líf hans U-beygju inn í heim þeirra veiku, hann var orðin sjúklingur og fyrra líf hans hvarf eins og dögg fyrir sólu. Hann var greindur með Geðhvarfaklofa og missti fjölskyldu, vinnu og skólavist.
Gott og illt
„Kannski er ég bara öðruvísi en aðrir og sé hlutina á annan hátt,“ segir Guðjón. Hann leggur höndina á hjartað eins og til þess að hlífa þessum stað sem sogar til sín linnulaust allan glundroða heimsins, byrði sem hjartað getur ekki höndlað.
„Ég heyri ekkert raddir eða svoleiðis og ég sé ekki ofsjónir. En ég finn bara of mikið til. Sumt fólk skynja ég sem vont án þess að hafa einu sinni átt orðaskipti við það.“
„Á tímabili skynjaði ég svo mikla grimmd í heiminum,“ segir Guðjón og upplifun hans er svo áþreifanleg og hispurslaus. Hann er áhorfandi af heim sem æðir áfram af græðgi og hatri og það meiðir. Í heim hans er tvíhyggja hins góða og illa.
„Ég upplifi tvo póla, illskuna annars vegar og hið góða á hinum endanum en mér finnst eins og illskan sé að renna sitt skeið í sögunni og fyrir höndum glitti í friðartíma.“
En hver hlustar á Guðjón, hann er greindur með geðhvarfaklofa og samfélagið okkar dregur allt í efa sem hann segir og hugsar, fordómar samfélagsins og þröngsýni ýtir honum fyrir borð.
Guðjón veit aldrei hvort að hans mat fái hljómgrunn og hvort að hann yfirhöfuð eigi að tjá sig um sínar skynjanir. Af þessari togstreitu stafar mikill kvíði og við minnsta áreiti fyllist hann óöryggi sem leiðir til þess að honum er mikið í mun að hafa reglu á öllu í kringum sig.
Beið eftir búsetuúrræði í sex ár
Ef maður veikist þá missir maður allt. Þegar Guðjón veiktist þá missti hann heimilið sitt. Hann lagðist oft inn á geðdeild fyrstu árin í veikindum sínum og þegar hann var ekki inn á deild fékk hann inni hjá móður sinni. Hann beið í sex ár eftir úrræði frá Félagsbústöðum. Fyrir tveim og hálfu ári eftir sex ára bið fékk hann að lokum sína eigin íbúð í Grafarholti þar sem hann býr í dag, eitt svefnherbergi og stofa. En við það að eignast eigin samastað þá loksins fór baráttan við sjúkdóminn að snúast honum í vil.
„Ég fer að ná einhverjum bata eftir að ég flyt frá mömmu og byrja að búa einn og taka ábyrgð á mér sjálfur. Að lifa með geðhvarfaklofa eins og mína veiki þýðir að lifa í mjög erfiðum heimi. Stundum missi ég alla von. Það eru gríðarleg átök að komast upp úr þunglyndinu. Ég veit ekki hvað ég er búin að ganga mörg þúsund kílómetra síðustu árin,“ segir Guðjón sem hvorki reykir né drekkur og borðar eins hollt og efni leyfa.
„Ég sef 12 til 13 tíma á nóttu en í vöku ásaka ég mig fyrir að þurfa allan þennan svefn. Mín von er alltaf sú að minnka skammtinn og öðlast meira þrek. En á móti óttast ég bakslag af því Lepotex lyfin hafa hjálpað mér svo mikið.“
Það vantar brú
Allt hvarf fyrir níu árum og síðan hefur Guðjón verið að byggja sig upp frá engu, hægt og rólega. Vinir og kunningjar hurfu þegar hann veiktist. En samskipti við annað fólk er besta meðalið. „Ég er að reyna að ná meiri bata og ég get það ekki einn með sjálfum mér. Ég þarf á öðru fólki að halda til þess að byggja mig upp og ná fótfestu.“
Hann sækir samveru í Hlutverkasetrið og Hugarafl og fótboltaæfingarnar hjá FC Sækó eru grundvallar bjargræði fyrir Guðjón. En allir þessir þættir sem eru nauðsynlegri fyrir batann og rútínu sem hann er mjög háður liggur niðri að mestu leyti í samkomubanninu og þá er bara að fara út að ganga 5,2 km á dag.
„Það vantar brú úr veikindunum inn í samfélagið eða út á vinnumarkaðinn. Ég get ekki stundað neitt nám sem kostar og ber kostnað með sér, ég hef ekki ráð á því. En ég gæti unnið hlutastarf eða að því marki að það skerði ekki öryrkjabæturnar, ég gæti hugsað mér 25 prósent starf ef slíkt væri í boði.“ En slíkt starf er líklega óhugsandi.
Sá ekki son sinn vikum saman
Þegar þú veikist þá missir þú allt, líka réttinn til þess að vera faðir. „Erfiðast af þessu öllu var að sjá ekki son minn fyrstu vikurnar eftir að ég veiktist.“ Tilhugsunin um að geta misst barnið sem var þá tveggja ára var óbærileg ofan á veikindin. Sem tveggja ára lítill drengur missti Guðjón sjálfur sinn eigin föður í flugslysi og þekkir vel föðurleysið á eigin skinni, reyndar þekkir hann ekkert annað en líf en líf án föðurins eins og hann segir sjálfur. Í gegnum veikindin sín barðist hann fyrir því að fá að vera faðir og vinna traust umhverfisins til þess að fá að sinna því hlutverki. Það fór vel og sem betur fer eru samskiptin í fastri reglu í dag og feðgarnir eru saman aðra hvora helgi í það minnsta. „Sonur minn er tólf ára í dag. Hann er að verða unglingur, hann er að breytast og heimurinn að stækka og þá skipta vinirnir svo miklu máli. Stundum kemur hann með vin sinn og þeir gista báðir hjá mér og hafa félagsskap af hvor öðrum og þá er ég aukapersóna. Sonur minn er allt sem skiptir mig máli í lífinu,“ segir Guðjón ákveðinn eins og skip sem hefur náð að festa akkeri.
Leigan tekur helming
„Helmingurinn af bótunum fara í leigu. Ég borða hollt og læt mér duga þúsund krónur á dag í mat en það er allt að hækka núna, ég sé það í kringum mig. Skyr, grænmeti og ávaxtabúst er uppistaðan í næringu minni. Þar fyrir utan fæ ég fisk frá sjómanni sem er veruleg búbót vegna þess hversu fiskur er dýr, annars kaupi ég tilbúinn rétt fyrir níu hundruð krónur sem ég skipti upp í þrjár máltíðar og frysti. Strákurinn minn unir þessu og kvartar ekki en að sama skapi finnst mér óþarfi að leggja þetta á hann. Ég reyni að spara í mat við sjálfan mig á milli þess sem hann er hjá mér og þá getum við leyft okkur að fara í bíó eða ferð í Rush. Svona er bara staðan og við þurfum að lifa við þetta. Strákurinn hefur það annars gott, hann æfir tvær íþróttir og ég get borgað helming í skó handa honum á sex mánaða fresti ef ég minnka við mig í mat. Þetta er frekar sárt.“
„Ég get borgað helming í skó handa honum á sex mánaða fresti ef ég minnka við mig í mat“
Það er ekki bara Guðjón sem missti allt þegar hann veiktist. Hann hafði sjálfur búið einn í íbúðinni í Grafarholti í tvö ár þegar hlutskipti snérust og mamma hans missti sitt húsnæði. Eftir fimmtíu ár á vinnumarkaðnum og basl einstæðrar móður veiktist hjartað og þrekið þvarr. Hún gat ekki lengur borgað af lánunum sem hækkuðu og fyrir þrem mánuðum gafst hún endanlega upp. Við þessar aðstæður var svefnsófinn í stofunni hjá Guðjóni eina lendingin. Móðirin sem hafði hingað til alltaf bjargað sér og oftast haldið sjó ein með þrjá stráka og tvær vinnur. Komin á sjötugsaldurinn er hún núna upp á son sinn komin með gistingu og bíður eftir svari frá Félagsbústöðum, svar sem lætur bíða eftir sér.
Mamma sefur í stofunni
„Þetta er mjög vond staða. Það er ekki hægt að leggja það á mömmu eða son minn að hún sofi á sófanum inn í stofu hjá mér og hann á dýnu á gólfinu. Við mamma rekumst á hvort annað. Hún hefur alltaf verið afar sjálfstæð og hefur miklar skoðanir á heimilisstörfunum og við erum að troða hvort öðru um tær í þeim efnum sem öðrum. Mér er alveg sama hvernig það er raðað í uppþvottavélina bara að takmarkið sé að allt komi hreint út aftur,“ segir Guðjón í léttri uppgjöf.
Ágreiningsmál í eins herbergja íbúð í Grafarholtinu sem virðast smá verða risavaxin hjá fullorðnu fólki sem á fullt í fangi með að sinna heilsu sinni hvort um sig. Og ekki batnar það við ríkjandi aðstæður þegar fólk er meira og minna bundið heima í sinni sóttkví. „En við verðum að standa saman í þessu það er engin annar,“ segir Guðjón og bætir við: „Ég veit það ekki, en mér finnst samt ég eiga skilið gott líf.“
Frásögnin er hluti af greinaröð Öryrkjabandalags Íslands, Við erum hér líka. Höfundur texta og ljósmynda er Alda Lóa Leifsdóttir.
Athugasemdir