Efnahagskreppan sem Covid-faraldurinn kallar nú yfir hagkerfi heimsins mun hafa miklu verri afleiðingar en kreppan eftir alþjóðlegu fjármálakrísuna um haustið 2008. Þettta er mat Barry Eichengreens, prófessors í hagfræði og stjórnmálafræði við Háskólann í Berkeley í Bandaríkjunum, sem skrifað hefur margar bækur og fræðigreinar um efnahagshrun og -kreppur.
„Þessi kreppa verður, djúp, ekki spurning, bæði í Bandaríkjunum og alþjóðlega og nær örugglega dýpri en kreppan eftir 2008,“ segir Eichengreen.
Í svari til Stundarinnar segir hann að munurinn á þessari efnahagskrepppu og einnig Kreppunni miklu á fjórða áratugnum sé að nú hrynji raunhagkerfið. „Sérhver óhamingjusöm fjölskylda er óhamingjusöm á sinn hátt, sagði Leo Tolstoy, og sérhver efnhagskreppa er einstök. Kreppurnar sem riðu yfir heiminn eftir 1929 og 2008 voru kreppur sem leiddu til hruns í heildareftirspurn [e agrregate demand] í samfélaginu. Þessi kreppa felur í sér hrun raunhagkerfisins [e. Real economy], þar sem verksmiðjur og fyrirtæki munu loka, og mun það leiða til hruns á heildarframboði [e. aggregate supply] í samfélaginu.“
Stundin leitaði til nokkurra sérfræðinga á sviði hagfræði og hagsögu og bað þá að velta fyrir sér þeirri efnahagskreppu sem heimurinn stendur nú frammi fyrir í kjölfar Covid-faraldursins. Blaðið bað sérfræðingana að velta fyrir sér afleiðingum þess að hagkerfi heimsins hafa nær lokast samhliða því sem ríki heimsins reyna að verjast útbreiðslu sjúkdómsins og þess mannlega og efnahagslega fjörtjóns sem af honum hefur hlotist.
Þegar raunhagkerfið hrynur
Eitt af því sem gerir þessa kreppu svo sérstaka er að nánast á einu nóttu var skrúfað fyrir tekjustreymi inn í svo mörg fyrirtæki, meðal annars í ferðaþjónustu á Íslandi. Það er þetta atriði sem Barry Eichengreen kemur inn á þegar hann talar um að þessi kreppa feli í sér hrun raunhagkerfisins. Ekki eru mörg fordæmi fyrir því í sögunni að tekjustreymi svo margra fyrirtækja, í svo mörgum löndum, hafi stöðvast á nánast sama tíma. Ljósin slokknuðu eiginlega í hagkerfunum samtímis og öll starfsemi þeirra lamaðist að hluta eða stóru leyti.
Eigandi fataverslunarinnar Geysis, Jóhann Guðlaugsson, kom ágætlega inn á þetta í nýlegu viðtali við Stundina þar sem bar saman þetta ástand við stöðuna árið 2008. „Fyrri kreppa, árið 2008, snerist um efnahagsreikning fyrirtækja þar sem skuldsetning óx svo mikið, skuldir hækkuðu. Það sem er að gerast núna er að tekjur fyrirtækja eru að fara niður í nánast ekki neitt og efnahagshjólin eru að hætta að snúast. Þetta gerðist ekki í fyrri kreppu þar sem það gerðist að fyrirtæki skiptu kannski um eigendur. Fyrirtækin hættu ekki að fá tekjur þá. Ég á von á því að við séum að fara að sjá dýpri kreppu en eftir bankahrunið og það mun þurfa ansi sterkt handafl til að komast út úr því. Þetta eiga eftir að verða skrítnir tímar,“ sagði Jóhann við Stundina um miðjan mars.
Höggið af Covid-faraldrinum varð strax mikið fyrir flugfélög, ferðaþjónustufyrirtæki, en einnig minni fyrirtæki eins og marga veitingastaði, verslanir og kaffihús sem reiða sig á sölu þjónustu. Á Íslandi lokaði einn vinsælasti ferðmannastaður landsins, Bláa lónið, nær samstundis, Icelandair sagði upp fjölda manns tímabundið með nýtingu hlutabótaleiðarinnar og hótelin í landinu standa auð. Samtímis í Svíþjóð, til dæmis, lokaði bílaframleiðendurnir Volvo og Scania verksmiðjum sínum tímabundið, flugfélögin SAS og Norwegian tilkynntu um mörg hundruð manna tímabundnar uppsagnir og verslanir fatarisans H&M tilkynntu 50 prósent sölusamdrátt í verslunum sínum í mars.
Sambærileg dæmi væri hægt að taka frá öllum löndum heimsins; alls staðar eru sögurnar eins þegar tekjurnar hætta að koma í kassann.
Heilu atvinnugreinunum lokað
Gylfi Magnússon, dósent í hagfræði við Háskóla Íslands og fyrrverandi viðskiptaráðherra, kemur inn á þetta atriði í sínu mati á stöðunni. Hann segir einnig að það sem geri atburðina í Covid-faraldrinum sérstakan sé hversu hraðar hinar efnahagslegu afleiðingar voru. „Enginn vafi leikur á því að veirufaraldurinn sem nú skekur heimsbyggðina mun hafa veruleg áhrif á efnahagslíf heimsins. Samdrátturinn nú er mun hraðari en áður eru dæmi um og að því leyti ólíkur fyrri áföllum. Skýrar hagtölur eða spár liggja ekki fyrir. Þó virðist óhætt að fullyrða að framleiðsla á vörum og þjónustu hefur dregist saman um tugi prósenta á nokkrum vikum í þeim löndum og svæðum þar sem brugðist hefur verið harkalega við til að reyna að hefta útbreiðslu veirunnar. Heilu atvinnugreinunum hefur ýmist verið lokað af yfirvöldum eða eftirspurn hrunið nær algjörlega. Í mörgum öðrum atvinnugreinum er ekki með góðu móti hægt að halda uppi starfsemi vegna þess að aðfangakeðjur hafa rofnað eða starfsfólk kemst ekki til vinnu,“ segir Gylfi.
Athugasemdir