Síðustu vikur hef ég verið með í bakgrunni hugans brot úr kvæði eftir Jakobínu Sigurðardóttur:
Langt í burt
vakir veröld stór,
grimmum töfrum tryllt,
eirðarlaus,
óttast nótt og dag.
Augu þín,
óttalaus og hrein,
brosa við mér björt.
Hugur minn er fyrst og fremst hjá þeim sem eru veikir eða óttast um eða syrgja ástvini – einnig hjá þeim sem eru innilokaðir í flóttamannabúðum og fangelsum og öðrum sóttargildrum; og allslausum verkalýð þriðja heimsins sem komandi alheims-efnahagskreppa mun bitna hvað verst á. Ég hugsa með dúnmjúkri samkennd til þeirra sem eru með alvarlega kvíðaröskun og þurfa núna beinlínis að vanda sig við hvern andardrátt.
Á sama tíma sé ég næstum blindandi ljós í myrkrinu. Heimurinn er að losna úr álögum. Hinir grimmu töfrar sem Jakobína orti um eru að missa tökin. Hraðinn, offramleiðslan með tilheyrandi náttúru-áníðslu, krafan um stöðugan hagvöxt, fólk smættað niður í framleiðendur og neytendur, endalaus þeytingur milli heimshorna í leit að einhverju sem einungis er að finna innra með okkur sjálfum. Allt þetta hefur verið bremsað mjög snögglega af og í ljós kemur að samfélagið stendur völtum fótum. Vegna þess að áherslurnar voru á röngunni. Núna erum við öll heima hjá okkur að horfast í augu við hver raunveruleg gildi okkar eru – og voru allan tímann, þótt grimmir töfrar hafi staðið í vegi fyrir því að hinum sönnu gildum væri fylgt eftir.
„Ég vildi að umbreytingin væri ekki svona harkaleg og fórnirnar svo skelfilegar“
Allra síst óska ég mér (og okkur öllum) til handa að heimurinn fari aftur í samt lag, þ.e. sama gamla farið. Gamla farið er að liðast í sundur. Það fyrirkomulag sem var ríkjandi áður en kófið skall á var álíka jarðbundið og kókaínvíma. Við vitum ekki hvað við fáum í staðinn, enda er það ekki þannig að við „fáum“ eitthvað yfir okkur. Við sköpum það í sameiningu. Það sem þarf til að gera stórar breytingar er að sem flestir vakni til vitundar um ýmsa hluti. Og kófið er mjög vekjandi.
Hvað viljum við í staðinn fyrir gamla farið? Eins og er vitum við kannski betur hvað við viljum ekki. En það er þó eitthvað. Byrjun.
Ég er bjartsýn að eðlisfari. Ég get ekki að því gert. Ég er komin af ódrepandi bjartýnis-hundum í móðurætt. Ekki finnst öllum það greindarlegt og við höfum verið sökuð um að gapa upp í vindinn. En bjartsýnin hefur aldrei gefist minna en vel. Yfirleitt höfum við rétt fyrir okkur þegar til lengri tíma er litið. Þegar ég viðra sýn mína um á hvaða leið við getum verið, sem samfélag, sem mannkyn, er mér gjarnan bent á að „það breytist aldrei neitt“. Það finnst mér fyndið. Allt tekur einmitt stöðugum breytingum. Það er ekkert svo langt síðan að flestum í Bandaríkjum Norður-Ameríku fannst þrælahald sjálfsagt og fínt fyrirkomulag. Það þurfti stríð til að koma á hugarfarsbreytingu hvað það varðaði, en það er samt yfirborðsleg túlkun. Raunverulegar samfélagsbreytingar eiga sér stað hægt og hljótt, innra með hverju og einu okkar. Kófið er stríð sem hrindir óvart af stað hægum og hljóðum breytingum í hugum og hjörtum um allan heim.
Heimurinn verður aldrei samur og það er gott. Í gangi og fram undan eru sársaukafullar breytingar en þær eru góðar og nauðsynlegar. Ég vildi að umbreytingin væri ekki svona harkaleg og fórnirnar svo skelfilegar. Við getum ekki vitað hverjir verða eftirlifandi til að verða vitni að breyttum heimi og við vitum ekki hvernig sá heimur mun líta út en við verðum að hafa kjark til að horfa björtum augum fram á við.
Það sem helst viðheldur mínum kjarki er að hafa í huga að ég er ekki líkami heldur sál. Allir þeir sem ég elska og óttast um í kófinu eru ódauðlegar sálir. Allt það fólk sem lætur lífið, syrgir og missir lífsviðurværi og viðkvæma fótfestu í kófinu er ódauðlegar sálir.
Vonin mín,
blessað brosið þitt,
vekur ljóð úr værð.
Hvílist jörð
hljóð í örmum snæs.
Liljuhvít
lokar augum blám
litla stúlkan mín.
(Annað brot úr Vökuró eftir Jakobínu Sigurðardóttur)
Athugasemdir