Á síðasta sólarhring hafa tveir sjúklingar látist á Landspítala vegna COVID-19. Þetta kemur fram á vefsíðu spítalans. Annar þeirra er eiginmaður Jóninnu Margrétar Pétursdóttur sem lést af völdum sjúkdómsins í síðustu viku. Hann var 75 ára gamall.
Sonur þeirra minnist foreldra sinna með þessum orðum: „Ég er eiginlega búinn með orðin, ég vona bara að þau séu á góðum stað og líði vel saman. Ég elska ykkur bæði.“
„Ég vona bara að þau séu á góðum stað og líði vel saman“
Tólf á gjörgæslu
Fjórir hafa látist látist hér á landi af völdum sjúkdómsins, sá fyrsti var ástralskur ferðamaður sem lést á Húsavík 17. mars. Á síðasta sólarhring voru 99 greindir með COVID-19 veiruna og eru smitaðir því orðnir 1.319 talsins. Alls eru 950 fullorðnir og 108 börn undir eftirliti COVID-göngudeildar Landspítalans.
Af þeim eru flestir í einangrun heima hjá sér eða 1.031, en nú liggja 43 á sjúkrahúsi vegna sjúkdómsins og þar af eru 12 á gjörgæslu á Landspítalanum og á sjúkrahúsinu á Akureyri. Tveir til viðbótar eru innilagðir á Landspítala þar sem grunur leikur á að þeir séu með COVID-19 veiruna.
Á upplýsingafundi almannavarnardeildar ríkislögreglustjóra í dag kom fram að um helmingur þeirra sem greindust á síðasta sólahring hafi þegar verið í sóttkví og að ekki væri mikið um samfélagsleg smit. Greindu Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir og Alma D. Möller landlæknir frá þvía ð faraldurinn fylgi almennt spálíkani, en verstu spám þegar kemur að alvarlegustu veikindum vegna veirunnar, þeim sem lenda á gjörgæslu. Mögulega væri skýringin sú að líkanið fylgir gögnum frá Kína þar sem heilbrigðiskerfið hafi ekki verið undirbúið til að takast á við faraldurinn, ekki hafi verið hægt að uppfylla þarfir fyrir heilbrigðisþjónustu og gjörgæsluþörf hafi líklega verið vanmetin.
Vottuðu þeir sem þar komu fram aðstandendum hinna látnu samúð.
„Það er mjög dapurlegt að svona fari,“ sagði Páll Matthíasson forstjóri Landspítalans.
Hrakaði hratt
Í viðtali við Stundina sagði sonur hjónanna að faðir hans hefði ekki glímt við nein veikindi áður en hann smitaðist af COVID-19 veirunni. Honum hafi hríðversnað hratt og legið mikið veikur á Landspítalanum.
Eiginkona hans, Jóninna Margrét Pétursdóttir, lést á Landspítalanum þann 23. mars síðastliðinn, fyrst Íslendinga, eftir að hafa verið flutt þangað mikið veik viku áður, 16. mars síðastliðinn. Fram að því hafði hún engin einkenni sýnt. Sonur þeirra sagði að sökum veikindanna hefðu fáið getað vitjað hennar á spítalanum og hún hefði dáið ein.
„Hún var ein þegar andlátið bar að garði. Það er mjög erfitt að vita til þess.“
Athugasemdir