Stundin mun á næstu vikum senda út menningarviðburði í samstarfi við Menningarhúsin í Kópavogi. Viðburðirnir verða haldnir klukkan 13 á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum á meðan samkomubanni stendur vegna COVID-19 heimsfaraldursins. Hægt verður að sjá viðburðina á forsíðu Stundarinnar, á Facebook-síðu Stundarinnar og Facebook-síðu Menningarhúsanna í Kópavogi.
Meðal þeirra sem koma fram í viðburðaröðinni eru Sævar Helgi Bragason stjörnufræðingur, Gerður Kristný skáld, Jógvan, Matti Matt, Vignir Snær, Ragna Fróðadóttir, Andri Snær Magnason rithöfundur, Sigurbjörn Bernharðsson, Halla Oddný, Þorgrímur Þráinsson, Elín Björk Jónasdóttir, Einar Falur, Kordo kvartettinn og Hrönn Egilsdóttir.
Í þessari útsendingu spjallar Halla Oddný Magnúsdóttir við Sigurbjörn Bernharðsson fiðluleikara, sem er búsettur í Oberlin í Ohio í Bandaríkjunum þar sem hann er prófessor við hinn virta tónlistarháskóla Oberlin Conservatory. Útsendingin hefst klukkan 13. Streymi af viðburðinum verður birt í þessari frétt og á fyrrgreindum Facebook-síðum ásamt forsíðu Stundarinnar. Þá verður upptaka tiltæk á sömu stöðum í kjölfarið.
Eftirfarandi er tilkynning frá menningarhúsunum í Kópavogi um viðburðinn:
Sigurbjörn Bernharðsson fiðluleikari spjallar við Höllu Oddnýju Magnúsdóttur en Sigurbjörn er búsettur í Oberlin í Ohio í Bandaríkjunum þar sem hann er prófessor við hinn virta tónlistarháskóla Oberlin Conservatory. Mjög strangt samkomubann er í Ohio en Sigurbjörn er hinsvegar langt frá því að vera iðjulaus en hann kennir nemendum sínum í gegnum netið frá heimili sínu. Nemendur hans koma frá öllum heimshornum og hafa nú snúið til síns heima þar til Covid-19 ástandinu lýkur. Sigurbjörn, Sally Takada konan hans og börnin þeirra tvö eru öll “heimavinnandi” og því í nógu að snúast.
Auk spjalls um líf og starf Sigurbjörns mun hann spila hluta af Tzigane eftir Ravel, þó án undirleiks sökum samkomubanns, en Tzigane er meðal þeirra verka sem Sigurbjörn og Anna Guðný Guðmundsdóttir píanóleikari ætluðu að flytja á Tíbrártónleikum 17. mars síðastliðinn. Auk þess spilar Sigurbjörn einleiksverk eftir frænda sinn, Þorkel Sigurbjörnsson.
Um Sigurbjörn:
Sigurbjörn Bernharðsson hóf fiðlunám 6 ára gamall hjá Gígju Jóhannsdóttur í Tónmenntaskóla Reykjavíkur. Árið 2017 hóf hann starf sem Prófessor í fiðluleik í Oberlin Conservatory. Fram að því var hann meðlimur í Pacifica Strengjakvartettinum og spilaði um 90 tónleika árlega í mörgum af helstu tónleikasölum heims m.a Wigmore Hall, Wien Konzerthaus, Concertgebouw í Amsterdam, Alice Tully Hall, Carnegie Hall í New York og Suntory Hall í Tókýó. Sigurbjörn hefur komið fram á mörgum af helstu tónlistarhátíðum heims m.a Edinborgar hátíðinni, Ravinia, Aspen Music festival og Music@menlo. Sigurbjörn hefur hlotið ýmsar viðurkenningar á ferli sínum, og með Pacifica Kvartettnum, þ.á.m. Grammy verðlaunin, Musical America Ensemble of the Year og The Avery Fisher Career styrkinn.
Hann hefur unnnið og tekið upp með listafólki eins og Yo Yo Ma, Lynn Harell, Menahem Pressler, Leon Fleicher, Jörg Widman, Emerson kvartettinum og meðlimum í Guarneri og Cleveland String Quartet.
Sigurbjörn hefur starfað sem Prófessor í fiðlu og kammertónlíst við The Jacobs School of music at Indiana University, University of Illinois og verið Artis in Residence við University of Chicato.
Sigurbjörn heldur reglulega einleikstónleika og kammer tónleika ásamt því að halda Master klassa í Bandaríkjunum, Asíu Evrópu og á Íslandi. Hann lærði hjá Guðnýju Guðmundsdóttur, Roland og Almitu Vamos, Matias Tacke og Shmuel Ashkenasi.
Athugasemdir