Nú þegar uppselt er á tvenna tónleika GusGus í nóvember næstkomandi hefur hljómsveitin ákveðið að gefa tuttugu miða á þriðju tónleikana í Eldborgarsal Hörpu, í samstarfi við Stundina.
Um er að ræða 25 ára afmælistónleika GusGus sem haldnir verða 6. til 7. nóvember næstkomandi. Með þessu er ætlunin að leiða huga fólks að því að lífið heldur áfram sinn vanagang eftir að COVID-19 faraldrinum slotar og samkomubanni verður aflétt.
Þátttaka í útdráttarleiknum krefst þess að skrá nafn sitt í ummælum hér fyrir neðan fréttina og tilgreina þar hvaða lag með GusGus er í uppáhaldi hjá viðkomandi, ásamt því að deila fréttinni.
Dregið verður í leiknum á Páskadag, sunnudaginn 12. apríl. Sem fyrr segir er uppselt á tvenna tónleika hljómsveitarinnar. Ákveðið var að bæta við þriðju tónleikunum og hefst miðasala á þá fimmtudaginn 2. apríl.
Á tónleikunum munu fyrri meðlimir GusGus einnig koma fram til að flytja mörg af vinsælustu og bestu lögum hljómsveitarinnar í gegnum árin.
Fram koma, ásamt GusGus: Daníel Ágúst Haraldsson, Emiliana Torrini, John Grant, Högni Egilsson, Magnús Jónsson og President Bongo.
GusGus hélt áður tónleika í Eldborgarsalnum fyrir ári síðan, við góðar viðtökur.
Athugasemdir