Gísli Níls Einarsson hjúkrunarfræðingur, sem að öllu jöfnu starfar sem sérfræðingur í forvörnum hjá VÍS, er einn af þeim sem hefur svarað kalli heilbrigðisyfirvalda um að ganga til liðs við bakvarðasveit heilbrigðisþjónustunnar. Starfsvettvangur Gísla er er nú göngudeild Landspítala fyrir COVID-19 smitaða. „Þetta er það sem ég get lagt af mörkum í þessu stóra verkefni sem við erum að fást við,“ segir hann.
Gísli er ekki ókunnugur krefjandi aðstæðum. Auk hjúkrunarfræðimenntunarinnar er hann slökkviliðs- og sjúkraflutningamaður og starfaði meðal annars við sjúkraflug, sérhæfði sig í bráðaþjónustu og -flutningum, var deildarstjóri á Landspítala og starfaði á vegum Íslensku friðargæslunnar með breska hernum á hópslysasjúkrahúsi NATO í Bosníu. Þá setti Gísli upp heilsugæslustöð á byggingarsvæði Alcoa á Reyðarfirði þegar bygging álversins stóð yfir. Undanfarin 13 ár hefur hann starfað hjá VÍS, sem sérfræðingur í forvörnum þar sem hann veitir meðal annars fyrirtækjum og opinberum aðilum ráðgjöf um forvarnir og öryggismál.
Athugasemdir