Heilbrigðisyfirvöld hafa nú allar klær úti við að reyna að fá fleiri sýnatökupinna til greiningar á COVID-19 og í skoðun er að framleiða þá innanlands. Þetta sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á daglegum upplýsingafundi Almannavarna sem haldinn var klukkan 14 í dag. 701 barn hefur verið skimað og af þeim reyndust þrjú bera veiruna.
Hann sagði að liggja myndi fyrir á næstu dögum hvort faraldurinn væri í miklum eða litlum vexti, en nú hafa 588 smit verið staðfest, þar af eru 13 á sjúkrahúsi samkvæmt vefsíðunni Covid.is. Skimanir sýndu að smithætta til barna yngri en 10 ára væri óveruleg. Af þeim 268 börnum sem skimuð hefðu verið á vegum sýkla- og veirufræðideildar Landspítala hefðu þrjú börn greinst með veiruna.
433 börn hefðu verið skimuð hjá Íslenskri erfðagreiningu og ekkert þeirra hefði reynst vera með veiruna. „Það er mat okkar á þeim aðgerðum sem við höfum verið að grípa til er að við séum á réttri leið. Við erum að grípa til réttra aðgerða og stoppa smit. Dagleg meðaltalsaukning sýkinga er einna lægst hér á landi, sé miðað við nágrannalöndin,“ sagði Þórólfur.
„Ég held að við getum fullyrt út frá þessum tölum að það er ekki sjáanlegt verulegt smit meðal barna í þessu samfélagi,“ sagði Þórólfur. Umræða um mikið smit hjá börnum og smithættu í grunnskólum hefði því ekki raungerst þótt svo ekki væri hægt að segja til um hvað síðar yrði.
Athugasemdir