Auka þarf smitvarnir á Alþingi eftir að Smári McCarthy, þingmaður Pírata, og sex starfsmenn Alþingis, sem allir vinna í sama húsi, reyndust smitaðir af kórónaveirunni. Mælst er til þess að aðeins þeir þingmenn, sem þurfa að taka þátt í umræðum á þingfundum hverju sinni, séu í Alþingishúsinu og nefndafundir munu fara fram með fjarfundabúnaði. Þá hefur verið ákveðið að einungis það starfsfólk Alþingis, sem þarf að sinna verkefnum á þingsvæðinu, mæti til vinnu.
Þetta kemur fram í tölvupósti sem viðbragðsteymi Alþingis sendi þingmönnum og starfsfólki seint í gærkvöldi. Þar er fólk ennfremur hvatt til þess að halda sig heima, finni það fyrir flensueinkennum.
Fjórir eru í fyrirskipaðri sóttkví, þingmenn og starfsfólk, og að auki eru nokkrir þingmenn og starfsmenn í sjálfskipaðri sóttkví vegna persónulegra heilsufarsástæðna sinna eða nákominna.
Smári McCarthy segir á facebooksíðu sinni að hann hafi farið í sjálfskipaða sóttkví fyrir viku eftir að hann hafi farið að hósta og á föstudaginn hafi hann verið greindur með COVID-19 smit. Þar segist Smári vera hress og að einkennin séu væg. Hann muni reyna að sinna þingstörfum eftir bestu getu. Hann skrifar ennfremur að hann viti ekki hvar eða hvernig hann hafi smitast.
Athugasemdir