Samtök áhugafólks um spilafíkn skora á landlækni, sóttvarnalækni, stjórn Almannavarna og rekstaraðila spilakassa að láta loka tímabundið spilasölum og spilakössum og þannig fækka smitleiðum á COVID-19 veirunni. Alma Hafsteinsdóttir, formaður samtakanna, segir að þess sé ekki gætt í spilasölunum að tveir metrar séu á milli viðskiptavina.
Hún segir að samtökin hafi óskað eftir afskiptum Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, innanríkis- og dómsmálaráðherra, upp úr miðjum mánuði vegna þessa, en ekkert svar hafi borist. Þá hafi þau einnig sent beiðni til alþjóðahreyfingar Rauða krossins um að grípa fram fyrir hendur Íslandsdeildar Rauða krossins, sem er einn rekstraraðila kassanna, og láta loka kössunum, en þaðan hafi ekki borist svör.
Fagna ákvörðun Vestmannaeyjabæjar
Samtökin fagna þeirri ákvörðun Vestmannaeyjarbæjar um að loka öllum spilakössum og spilasölum, en það var gert í dag sem hluti af hertum aðgerðum vegna útbreiðslu COVID-19.
Alma segir að fyllsta ástæða sé til að hafa áhyggjur af því að leyfishafar kassanna muni reyna að komast hjá þeim takmörkunum sem kunni að verða settar og bendir á að ekki sé um lífsnauðsynlega starfsemi að ræða. Hún fór, ásamt öðrum úr samtökunum á nokkra spilastaði í gærkvöld og segir að svo hafi virst sem hvorki fyrirmælum um hreinlæti né fjarlægð milli spilara hafi verið framfylgt.
„Auðvitað ættu þessir leyfishafar að bregðast við að fyrra bragði og sýna samfélagslega og siðferðislega ábyrgð en þau virðast ekki ætla að gera það, þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir,“ segir Alma.
Athugasemdir