Tvö sveitarfélög hér á landi, Vestmannaeyjabær og Húnaþing vestra, hafa hert aðgerðir vegna COVID-19 faraldursins.
Á sjöunda tímanum í kvöld setti Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir, sveitarstjóri í Húnaþingi vestra, inn tilkynningu á vefsíðu sveitarfélagsins fyrir hönd aðgerðastjórnar almannavarna á Norðurlandi vestra. Þar segir að fimm smit hafi verið staðfest þar. Því verði gripið til hertra sóttvarnaraðgerða strax.
„Frá og með kl. 22:00 í kvöld laugardaginn 21.mars 2020 skulu allir íbúar sveitarfélagsins sæta úrvinnslusóttkví. Úrvinnslusóttkví er tímabundin ráðstöfun meðan unnið er að smitrakningu. Í henni felst að einungis einn aðili af hverju heimili getur í hvert sinn yfirgefið heimilið til að afla aðfanga. Úrvinnslusóttkvíin gildir ekki um lífsnauðsynlega starfsemi, s.s. hjúkrunarheimili, sjúkrahús og dreifingu og verslun með matvæli og eldsneyti,“ segir í tilkynningunni.
„Einungis einn aðili af hverju heimili getur í hvert sinn yfirgefið heimilið til að afla aðfanga“
Ofangreind ákvörðun gildir þar til aðgerðarstjórn tilkynnir um annað.
„Jafnhliða gildir almennt samkomubann svo sem þegar hefur verið auglýst en þó með þeirri breytingu að hámarksfjöldi aðila sem mega koma saman í Húnaþingi vestra eru 5 aðilar,“ segir þar ennfremur.
Í tilkynningunni segir að höfðað sé til samfélagslegrar ábyrgðar allra íbúa til að virða ofangreint og vera alls ekki á ferli að nauðsynjalausu.
Eyjamenn herða samkomubann
Síðdegis í dag var samkomubann í Vestmannaeyjum hert, en þar hafa 11 smit COVID-19 veirunnar verið staðfest. Í því felst að viðburðir, þar sem tíu eða fleiri koma saman, eru óheimilir. Þá er aðgangur fólks að íþróttamannvirkjum, líkamsræktarstöðvum, skemmtistöðum, spilasölum, spilakössum og söfnum óheimill og sömuleiðis felst í því bann við starfsemi, þar sem nálægð er mikil er eins og hárgreiðslustofur, snyrtistofur og nuddstofur. Þá felst í banninu ennfremur að íþróttastarf barna og fullorðinna, þar sem nálægð er minni en tveir metrar og einhver sameiginleg notkun á búnaði er fyrir hendi, er bannað.
„Þá er aðgangur fólks að íþróttamannvirkjum, líkamsræktarstöðvum, skemmtistöðum, spilasölum, spilakössum og söfnum óheimill“
Þessar aðgerðir tóku gildi frá og með klukkan 18 í dag og í tilkynningu á vefsíðu Vestmannaeyjabæjar segir að í vissum tilvikum verði, auk þessa, gripið til hertra skilyrða hvað sóttkví varðar í nánasta hópi þeirra sem eru með staðfest smit og verður það metið í hverju tilviki.
Í báðum sveitarfélögunum eru aðgerðirnar ákveðnar í samráði við almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og sóttvarnalækni.
Athugasemdir