„Þakka ykkur kærlega fyrir,“ sagði Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, um kvöldmatarleytið í dag þegar hann þakkaði sjálfboðaliðum Fjölskylduhjálpar Íslands og björgunarsveitarfólki sem tekið hafa að sér að koma matarpökkum til efnalítilla fjölskyldna.
„Gangi ykkur vel í ykkar góðu störfum. Oft var þörf en nú er nauðsyn. Nú stöndum við saman, nú hjálpum við þeim sem eru hjálpar þurfi. Og saman komumst við í gegnum þessa erfiðleika sem nú er við að etja, því saman erum við svo miklu sterkari,“ sagði Guðni.
Vegna samkomubanns þurfa sjálfboðaliðar að keyra út matarpakka til fólks, ef matvæli eiga að komast til þeirra sem á þurfa að halda. Um er að ræða ólaunuð störf. Um 1.200 manns þiggja mataraðstoðina.
Í gær greindust 80 ný smit af COVID-19 á Íslandi. Þá kom í ljós að ástralskur ferðamaður, sem lést á Húsavík, hafði látist af völdum veirunnar. Starfsemi Alþingis verður takmörkuð við viðbrögð við veirunni næstu vikurnar. Fram kom í gær að þrír starfsmenn Alþingis væru smitaðir af veirunni. Yfir 3.700 manns voru í sóttkví í dag og samtals hafa 330 verið greindir með veiruna.
Athugasemdir