„Pabbi, ég vil vera með þér í sóttkví,“ sagði sjö ára dóttir mín, þar sem hún stóð í góðri fjarlægð frá dyrunum eftir að henni var tilkynnt að við yrðum aðskilin í tvær vikur.
Ég hafði farið í námsferð, fyrstu utanlandsferðina í langan tíma. Dag frá degi hurfu hlutir samfélagsins sem við tökum sem gefnum. Fyrst lokuðu verslanir. Svo kaffihús og veitingahús. Loks var útgöngubann.
Kvöldið fyrir útgöngubannið heyrðum við fagnaðarlæti brjótast út. Fólkið í Barcelona hafði farið út á svalir, klappað og hrópað húrra fyrir heilbrigðisstarfsfólki sem berst á fremstu víglínu.
Fyrsta upplifun mín af skylduaðskilnaði í sóttkví var að bæði börnin mín lýstu sig tilbúin að fórna veru sinni í samfélaginu til að vera með mér. Upplifunin var því öfugt við það sem blasir við, ekki aðskilnaður heldur yfirlýsing um nálægð.
Áhrif viðbragðanna
Á þessum tímum lærum við um okkur sjálf. Sumir munu fleyta sér áfram á öldum óttans. Einn flokksformaður á Íslandi byrjaði á því að leggja til fjöldasóttkví í Egilshöll, sem hefði dreift smitum til ósmitaðra á methraða. Margir vildu loka landinu.
Fyrir smitandi veiru með langan meðgöngutíma og lítið áberandi einkenni er sjálfgefið að verulega valdbeitingu þarf til að útrýma henni úr samfélaginu. Og um leið og það tekst geta ferðalög á milli landa sett af stað faraldur á ný. Ef takmarkið er uppræting með ferðabanni er líklegasta niðurstaðan endurteknar bylgjur og aflokun.
Ólíkt mörgum stjórnvöldum, til dæmis í Bandaríkjunum, Danmörku og í Evrópusambandinu, hefur ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur látið sérfræðinga með bestu mögulegu þekkingu taka ákvarðanir og miðla upplýsingum. Formaður Miðflokksins var fljótur til þess að gagnrýna ríkisstjórnina fyrir að vera ekki í forgrunni málsins, eins og er freistandi fyrir pólitískan ávinning. Hann gagnrýndi meðal annars ríkisstjórnina fyrir að vera á eftir Bretum í viðbrögðum, þótt fleiri smit væru greind hér. Staðreyndin er sú að engin þjóð önnur en Sameinuðu arabísku furstadæmin höfðu prófað jafnmarga fyrir smiti eins og Íslendingar og því olli mæliskekkja fjölgun smita hér.
Í kreppu veitir almenningur stjórnmálamönnum mun meira umboð til að taka völd og auðvelt er að spila inn á óttann til þess að tryggja meiri og meiri völd.
Sem betur fer hefur ríkisstjórn Íslands í þetta sinn staðist freistnivandann og virðist um leið staðist mátið að reyna að kæfa niður vandann til að vernda viðskiptahagsmuni, eins og í síðasta hruni, líkt og kínversk yfirvöld gerðu með valdbeitingu gegn blaðamönnum og læknum í upphafi faraldursins. Valddrifinn skortur á gegnsæi lá þannig í rót vandans.
Yfirsýnin við gluggann
Stundin er í dag helguð viðbrögðum okkar við veirunni og áhrifum viðbragðanna á okkur. Rætt er við fjöldann allan af fólki sem verður fyrir beinum áhrifum af faraldrinum, og svo horft til framtíðar í tilraun til að minnka óhjákvæmilega óvissu sem er óttavaldur í sjálfri sér.
Þegar okkur er kippt út úr hversdagslífinu og stöndum við gluggann á heimilinu fáum við óvænta yfirsýn yfir líf okkar.
Þeir sem einangra sig finna margir hverjir hvíldina frá hversdagslífi sem hefur knúið hvern á fætur öðrum til kulnunar vegna streitu. Sóttkvíin speglar líf okkar, sýnir okkur líf okkar í öðru ljósi.
„Kannski er þessi faraldur að sumu leyti góð áminning?“ segir Elín Elísabet Einarsdóttir teiknari í Stundinni.
Við sjáum líka mismuninn á því hvernig brugðist er við. Annars vegar heyrum við af þeim sem óttast aðra og útskúfa þeim vegna þess að aðrir gætu mögulega verið smitberar. Hins vegar heyrum við af fólki eins og Rósu Bragadóttur, sem er öryrki og sjálfboðaliði hjá Fjölskylduhjálp Íslands, sem er í hópi þeirra sem leggja sig fram um að dreifa matvælum til fólks í vanda.
„Það vekur hjá manni mikla von og bjartsýni að sjá fólk leggjast á eitt og hjálpa öðrum,“ segir Sigurgeir B. Þórisson skáti. Hann sviðsetti heimsókn heima hjá sér í sóttkví.
Ógnir: Veiran eða fólkið
Veiran færir okkur nokkuð sjaldgæft: Sammannlega áskorun sem ógnar okkur öllum. Hins vegar er munur á þeim sem skilgreina annað fólk sem ógn, eða veiruna sjálfa og venjurnar sem dreifa henni. Rétt eins og það var munur á þeim sem horfðu á kjarnorkuvopn sem ógn, og þeim sem horfðu fyrst og fremst á aðrar þjóðir sem ógn.
Við heyrum fréttir af stjórnmálaleiðtoga sem einkennir síðustu ár, eins og Donald Trump, sem reynir að fá einkarétt á notkun bóluefnis gegn COVID-19 fyrir Bandaríkjamenn og leiddi aflokunarstefnu, eins og hann innleiddi aflokun gegn múslimum strax við embættistöku sína.
„Útlenskur vírus,“ sagði Trump, vitandi að nú er sáðtími fyrir þá sem vilja næra vald sitt með ótta við útlendinga.
Hvað við gerum við þennan glugga sameiginlegs reynsluheims er í okkar höndum og markar leiðina fram á við. Við lokum okkur af og horfum út um gluggann á eigin heimili, eins og fólkið á Spáni, Ítalíu og Frakklandi. Það vekur líklega mestan óhug að opna augun fyrir því, eftir að þessi gluggi var opnaður, að ógnir sem voru okkur fjarlægar eru orðnar sýnilegar.
Veiran tekur ekki bara, hún gefur okkur líka nýja sýn og speglar okkur. „Við erum öll að upplifa eitthvað sameiginlegt,“ segir Perla Hafþórsdóttir við Stundina, á sama tíma og hún reynir að miðla ástandi heimsins til þriggja ára dóttur sinnar. „Síkin í Feneyjum verða tær og Ítalir syngja saman úti á svölum, það er margt fallegt í þessu,“ segir hún.
Viðbrögðin ógna okkur
Nú þegar ríkisstjórnir nokkurra landa hafa lokað landamærum, ólíkt Íslendingum sem vilja fara mildari og taktískari leiðir, er óttinn orðinn að raunverulegustu ógn við íslenskt efnahagslíf síðan lána- og bankabólan sprakk árið 2008.
„Ég hef aldrei lent í öðru eins efnahagsástandi,“ segir Jóhann Guðlaugsson, eigandi og framkvæmdastjóri Geysis-fataverslananna, í samtali við Stundina. Hann telur að komandi kreppa verði verri en eftir bankahrunið 2008.
„Við hjónin erum með allt undir í rekstrinum,“ segir Adda Sigurðardóttir, eigandi og hótelstjóri Hótel Vestmannaeyja, við Stundina. Hún hafði ætlað sér að gefast upp, en tekur núna einn dag í einu, í von þess að fá aðstoð frá ríkinu ef til kemur.
Um 7,7 prósent starfandi fólks á Íslandi vinnur við ferðaþjónustu og afleidd störf eru mörg. Ferðaþjónustan er einfaldasta útskýringin á því að Íslendingar komust hratt upp úr síðustu kreppu. Það er því augljóst að við viljum öll hjálpa þeim.
Við vitum ekki hvað mun gerast og það er ekki augljóst hvað er rétt að gera. Það er enginn einn sannleikur, vegna þess að hætturnar ráðast meðal annars af viðbrögðum annarra og óútreiknanleika flókins orsakasamhengis. Við þurfum því að horfa bæði til faraldursfræðanna, veirufræða og leikjafræðinnar, sem gefur til kynna hvernig aðrir munu bregðast við. Ef allir bregðast við í eigin hag, og stjórnmálamenn nýta tækifærið til að safna að sér völdum, hefur veiran kallað fram hegðun sem veldur jafnvel enn meiri skaða en lífeðlisfræðileg veikindin sjálf.
„Bestu varnir mannsins gegn sóttkveikjum eru ekki einangrun, heldur upplýsingar,“ skrifaði ísraelski sagnfræðingurin Yuval Noah Harari, í nýlegri grein.
Stundum er hættulegasti hluti veikindanna að ónæmiskerfið fer á yfirsnúning til þess að uppræta ógnina.
Veiran gefur fólki færi á sjálfsupphafningu, útskúfun og valdbeitingu.
En hún dregur líka fram sjálfsskoðun, samstöðu og hjálpsemi.
Á öðrum degi sóttkvíar hringdi dyrasíminn hjá mér. „Það er kominn póstur til þín,“ sagði dimm en skrækskotin krakkarödd, sem þóttist augljóslega vera fullorðin. Dóttir mín hafði skrifað mér fallegt bréf. Þegar á reynir sýnir fjarlægðin okkur hvað stendur okkur næst.
Að velja vonina, viskuna og velvildina fram yfir ótta og útskúfun er ákveðinn sannleikur í sjálfum sér, sem gæti dreifst eins og velmeinandi veira í kjölfarið, því það eru viðbrögðin sem móta okkur.
Athugasemdir