Lífshættan birtist í líki barna. Það er hin hrottalega kaldhæðni kórónaveirunnar nýju. Afa og ömmu er tjáð að vilji þau halda lífi skuli þau umfram allt forðast barnabörnin, sem fram að þessu hafa verið þeirra líf og yndi. Ég skal fúslega játa að í gönguferð í Ellliðaárdalnum um daginn tók ég eitt aukaskref til hliðar þegar ég mætti sérlega fjörugum barnahóp.
Því ég er jú í áhættuhópi!
Ég er alltof mikil kveif til að horfa mikið á hryllingsmyndir, en eitthvað rámar mig í mynd þar sem barn eða börn reyndust vera stórhættulegir morðingjar er sviptu upp flugbeittum hnífum þegar minnst varði. Hefur nú Covid-19 veiran gert þessa hallærismynd að veruleika, að breyttu breytanda?
Þessi veira umturnar flestu, það er víst. Alltaf þegar áföll hafa dunið yfir, stór og mikil áföll dunið yfir heilu þjóðirnar, jafnvel margar þjóðir, þá höfum við fundið huggun og styrk í samstöðunni. Við höfum safnast saman, grátið saman, talið kjark hvert í annað, sungið saman, hrópað saman, hlegið saman, alltaf saman.
En núna er það einmitt það sem við megum alls ekki gera.
Ítalir fara út á svalir til að syngja saman, en er það það sama og ef þeir stæðu þétt saman og fyndu hlýjuna hver frá öðrum?
Maður er ekki lengur manns gaman.
Þvert á móti.
Erasmus frá Rotterdam orðaði gamla hugsun Plautusar svo: „Hann varar okkur við því að treysta ekki ókunnugum fyrir lífi okkar, heldur varast hann eins og úlf.“
Eða eins og hugmynd Plautusar er oftast orðuð: „Homo homini lupus. Maður er manni úlfur.“
Nema hvað nú er það ekki einungis ókunnugt fólk sem við eigum að varast. Úlfurinn getur birst í lífi mannsins þíns eða konunnar minnar, í líki nánustu vina og ættingja og semsé jafnvel í líki barnanna. Allir geta borið með sér smitið. Hjónum er sagt að hafa nú ævinlega tvo metra á milli sín, leiki minnsti grunur um smit.
Á tímum kórónaveirunnar sýnum við fólki væntumþykju ekki með faðmlagi, nánd eða snertingu, eins og einhver sagði, Merkel minnir mig, heldur þvert á móti með því að halda okkur fjarri.
Ef við sjáum grátandi áhyggjufulla manneskju þá æpir mannúðin í brjósti okkar: Faðmaðu hana, snertu hana, huggaðu, láta hana finna styrk þinn, að hún standi ekki ein.
En núna megum við alls ekki láta undan þeirri rödd mannúðarinnar.
Því við gætum sjálf verið boðberi hörmunganna, jafnvel dauðans. Nú er okkur ætlað að styrkja hinn grátandi ástvin með því einmitt að láta hann finna að hann stendur einn.
Og enginn ætli að koma nálægt honum.
Og hendurnar, meistaraverk mannslíkamans, nú er ekkert hættulegra en þær.
Var ekki einhver billeg hryllingsmynd líka sem fjallaði um hönd sem lifði sjálfstæðu lífi og drap fólk að gamni sínu?
Hendur okkar, svo mjúkar, svo hlýjar, svo mannlegar, þær eru nú nánast ígildi morðvopns. Hvað sem þú gerir, ekki snerta mig með höndunum! Ekki leggja höndina á öxl mér, ekki klappa hughreystandi á höfuð mér, ekki leggja höndina mér á hjartastað, ekki strjúka hlýlega um vanga minn.
Nema þá þú sért með gúmmíhanska.
Og tárin, þau eru víst sérlega hættuleg. Veiran kann vel við sig í tárum, segja þeir sem rannsakað hafa.
Svo nú megum við ekki þerra tár hvert annars.
Umfram allt, bara alls ekki þerra tár hvert annars.
Þetta er ýkt mynd en á tímum sóttkveikjunnar, þá megum við ýkja. Þá hljótum við að ýkja. Og síðar, þegar allt verður komið í samt lag, þá verður þetta það sem við munum frá tímum kórónaveirunnar.
Að það var sá mótsagnakenndi hrollvekjandi tími þegar við máttum engan faðma, engan snerta, þegar við máttum ekki þerra tár hvert ananrs og þegar okkur var kennt að óttast börnin.
Athugasemdir