Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, lagði fram frumvarp á föstudag um að Vegagerðin fái heimildir til að semja við einkaaðila um fjármögnun vegaframkvæmda og gerð og rekstur opinberra mannvirkja.
Þarna er verið að liðka fyrir því sem er kallað public/private partnership (PPP) og hefur verið þýtt á íslensku sem samvinnuverkefni eða einkafjármögnun. Sjálfstæðisflokkurinn og ýmis hagsmunasamtök fyrirtækja og fjárfesta hafa kallað mjög eftir slíkri aðkomu einkaaðila að innviðauppbyggingu undanfarin ár.
Til eru dæmi um að samvinnuverkefni heppnist vel, en stundum er þetta lítið annað en falin lántaka, bókhaldsbrella (“a bit of dodgy accounting” eins og Nick Clegg, þáverandi formaður Frjálslynda flokksins í Bretlandi, lýsti því fyrir þingkosningar 2010) þar sem hið opinbera er raunverulega að takast á herðar umtalsverðar langtímaskuldbindingar gagnvart einkafyrirtækjum.
Fjármagnskostnaður einkaaðila er jafnan hærri en fjármagnskostnaður ríkisins og þess vegna er oftast hagkvæmara að ríkið fjármagni framkvæmdir með hefðbundnum hætti frekar en að einkaaðilar geri það með óhagstæðari lánum. Á þetta hefur auðvitað ítrekað verið bent. Endurskoðunarréttur Evrópusambandsins (European Court of Auditors) gerði nýlega rannsókn á 12 samvinnuverkefnum í Evrópu, meðal annars vegaframkvæmdum, og komst að þeirri niðurstöðu að PPP-fyrirkomulag hefði reynst illa. Gallarnir væru margvíslegir og ábatinn takmarkaður. Í Bretlandi hefur ofuráherslan á samvinnuverkefni verið katastrófísk (“totally discredited” sagði George Osborne fyrrverandi fjármálaráðherra um verkefnin, “looting” sagði Boris Johnson”).
Í greinargerð frumvarps Sigurðar Inga kemur ýmislegt fram sem vert er að staldra við. Í fyrsta lagi er aukin aðkoma einkaaðila réttlætt sérstaklega á þann veg að annað sé ekki í boði vegna fjármálareglna (reglna sem hafa verið gagnrýndar harðlega af hagfræðingum og fleirum hér á þessum vettvangi – já og meðal annars af núverandi forsætisráðherra). Svo virðist sem ríkisstjórnin telji sig múlbundna af þeim skorðum sem birtast í lögum um opinber fjármál og að þetta kalli á samvinnuverkefni í stað hefðbundinna innviðafjárfestinga. Orðrétt:
Í tilviki opinberra framkvæmda setja lög um opinber fjármál mörk sem hafa veruleg áhrif á með hvaða hætti er unnt að ráðast í samgönguframkvæmdir jafnvel þótt ætlunin sé að fjármagna þær í heild eða að hluta með álagningu veggjalda. Á það jafnframt við þótt sýnt þyki að tekjur af gjöldunum standi undir öllum framkvæmda- og rekstrarkostnaði vegna tiltekinna framkvæmda þegar upp verður staðið. Miðað við núverandi stöðu í ríkisfjármálum er því nauðsynlegt, ef ráðast á í auknar samgönguframkvæmdir, að fela þær aðilum utan hins opinbera sem geta þá endurheimt kostnað sinn í formi veggjalda eða eftir atvikum með reiðugreiðslum sem fjármagnaðar eru með veggjöldum.
Þarna ráða semsagt ekki hagkvæmnissjónarmið för heldur er verið að tryggja sérstaklega að kostnaður af samgönguframkvæmdum falli utan fjárlagabókhaldsins og rúmist þannig innan fjármálareglna laga um opinber fjármál. Þetta er athyglisvert í ljósi þess að Endurskoðunarréttur Evrópusambandsins varar sérstaklega við svona nálgun, að velja samvinnuverkefni fram yfir aðra kosti vegna bókhaldssjónarmiða:
Such practises increase the risks of negative side-effects that may undermine value-for-money, such as a biased approach towards PPP projects even in cases where value for money considerations could lead to different choices, unbalanced risk-sharing arrangements and higher costs for the public partner.
Hitt er ekki síður athyglisvert, að í greinargerð frumvarpsins er beinlínis viðurkennt að „reynslan í Evrópu hefur verið sú að vegna tilfærslu á áhættu og hærri fjármagnskostnaðar einkaaðila hafa samvinnuverkefni kostað 20–30% meira en verkefni sem hafa verið fjármögnuð með hefðbundinni aðferð“.
Ríkisstjórnin telur hins vegar að á móti þurfi að „meta samfélagslegan ábata í formi nýsköpunar, styttri framkvæmdatíma og minni áhættu hjá hinu opinbera“. Þarna virðist gengið út frá því líkt og heilögum sannleik að hið opinbera sé þunglamalegt og óskilvirkt en einkageirinn sveigjanlegur og skapandi. Í skýrslu Endurskoðunarréttar Evrópusambandsins er hins vegar rakið hvernig miklar tafir urðu jafnan á samvinnuframkvæmdum, samkeppni (þátttaka í útboðum) var lítil og kostnaðaráætlanir sprengdar. Það er engin ástæða til að ætla að verkefni sem þessi heppnist miklu betur á Íslandi.
Miklu skiptir hvernig brugðist verður við efnahagsskellinum sem nú dynur á okkur vegna Covid-19-veirunnar. Þar má ríkisstjórnin ekki láta fjármálareglur og hægridogmatík, svo sem ofurtrú á að einkaframtakið geri allt betur en hið opinbera, aftra því að ráðist verði í skynsamlegar og arðbærar framkvæmdir með lántöku eftir því sem þarf.
Athugasemdir