Íslensk stjórnvöld hafa komið á framfæri mótmælum vegna þeirrar ákvörðunar Bandaríkjastjórnar að banna flugferðir frá flestum löndum Evrópu. Ríkisstjórnin fundar í hádeginu í dag vegna þeirrar stöðu sem upp er komin vegna Covid-19 veirunnar og þessarra ákvörðunar banns Bandaríkjastjórnar. Í kjölfarið fundar ríkisstjórnin með formönnum stjórnarandstöðuflokkanna.
Þetta sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í morgun. Þingmenn stjórnarandstöðunnar sögðu mikilvægt að allir þingmenn hefðu jafnan aðgang að upplýsingum um stöðu mála.
Logi Einarsson, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði að ekki mætti bíða eftir að „veruleikinn teiknaðist einhvernveginn upp“. Hann sagði velferðarkerfið „í molum“ vegna hægristefnu í nokkur ár og að innviðir hefðu verið að grotna niður. Nú þyrfti að snúa þessari þróun við. „Mun ríkisstjórnin kalla stjórnarandstöðina og verkalýðshreyfinguna til borðsins til að leita lausna? Við erum öll í sama bátnum og það þarf allar hendur á dekk,“ sagði Logi.
Staðan önnur en 2008
Forsætisráðherra var til andsvara og sagði að ríkisstjórnin myndi koma saman til fundar í hádeginu og í kjölfarið funda með formönnum stjórnarandstöðuflokkanna. Á morgun yrði fundað með aðilum vinnumarkaðarins. „Staðan er allt önnur en 2008,“ sagði Katrín. Gjaldeyrisforði væri öflugur, skuldahlutfall lágt og viðskiptajöfnuður væri jákvæður. „Þær aðgerðir sem við kynntum eru aðeins þær fyrstu. Við verðum að tryggja að við komum standandi niður.“
„Þær aðgerðir sem við kynntum eru aðeins þær fyrstu. Við verðum að tryggja að við komum standandi niður“
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Viðreisnar, sagði að upplýsingagjöf til stjórnarandstöðunnar hefði ekki verið til fyrirmyndar og fagnaði boðuðum fundi með forystumönnum stjórnarandstöðunnar „Öllu máli skiptir að miðla upplýsingum fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu,“ sagði Þorgerður Katrín og lýsti yfir þungum áhyggjum af ákvörðun Bandaríkjastjórnar.
Utanríkisnefnd komi saman við fyrsta tækifæri
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra svaraði því til að íslensk stjórnvöld hefðu komið á framfæri mótmælum. Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarmálaráðherra, hefði átt samtal við sendiherra Bandaríkjanna í morgun, og í kjölfarið fund með staðgengli hans vegna málsins til þess að koma mótmælum á framfæri.
„Utanríkisráðherra hefur óskað eftir fundi í utanríkismálanefnd við fyrsta tækifæri til að ræða þá stöðu sem upp er komin. Tíðindi næturinnar hafa sett þetta í nýtt samhengi,“ sagði Katrín.
Í fréttatilkynningu frá Utanríkisráðuneytinu segir að Guðlaugur Þór hafi í þessum samtölum við bandarísk stjórnvöld lagt á það ríka áherslu að Ísland verði undanþegið ákvæðunum í ljósi landfræðilegrar sérstöðu sinnar og þeirra aðgerða sem íslensk stjórnvöld hafa gripið til til að hefta útbreiðslu Covid-19 hér á landi.
Athugasemdir