Á milli 70 og 100 börn og unglingar söfnuðust saman á lóð grunnskóla í Grafarvogi í nóvember síðastliðnum til að fylgjast með slagsmálum tveggja unglingsstúlkna. Ofbeldið hafði verið auglýst á samfélagsmiðlum og komu börnin víðs vegar að af höfuðborgarsvæðinu, mörg með strætó
Að sögn foreldris í hverfinu vildu stjórnendur viðkomandi skóla lítið skipta sér af málinu því það hefði átt sér stað utan skólatíma. Foreldrið, sem ekki treystir sér til að koma fram undir nafni vegna ótta við að hefndaraðgerðir unglinganna gætu bitnað á fjölskyldunni, segir að lögreglu hafi verið gert viðvart þegar vart varð við að fjöldi unglinga hafði safnast saman við skólann um átta leytið að kvöldi. „Lögreglan kom á staðinn og þá fóru krakkarnir í burtu. En um leið og lögreglan fór, þá komu þau aftur.“
Auglýst á Instagram
Unglingarnir og börnin voru þarna til að fylgjast með slagsmálum tveggja stúlkna í efstu bekkjum grunnskóla sem hugðust gera upp ágreining sín á milli á þennan hátt. Slagsmálin voru auglýst á samfélagsmiðlum, meðal annars á slagsmálasíðum með nöfn á borð við slagur.is og Slagsmál Ísland á Instagram.
„Einhverjir strákanna hótuðu mér og kölluðu mig öllum illum nöfnum fyrir að skilja þær“
„Kona, sem býr nálægt skólanum sá þetta út um gluggann hjá sér,“ segir foreldrið. „Hún hélt fyrst að það væri einhver samkoma fyrir krakkana í skólanum, en sá fljótt að þarna var eitthvað annað um að vera. Í Facebook-færslu sem hún deildi í samfélagsmiðlahópi foreldra í hverfinu skrifaði hún að hún vildi að foreldrar í hverfinu vissu að rétt í þessu hefðu skipulögð slagsmál verið á lóð skólans í hverfinu.“
Logandi flugeldar á flugi og allt brjálað
„Ég sá stóran hóp af krökkum í stórum hring og ég fór til að sjá hvað var um að vera. Þarna voru tvær stúllkur í miðju hringsins í hörðum slagsmálum og ég skildi þær að. Einhverjir strákanna hótuðu mér og kölluðu mig öllum illum nöfnum fyrir að skilja þær að og skemma þannig skemmtunina fyrir hópnum,“ skrifaði sjónarvotturinn í Facebook-færslunni. „Ég hringdi á lögregluna. Það var allt brjálað þarna, krakkar hlaupandi út um allt, það var verið að fleygja logandi flugeldum. Flestir voru að taka atvikið upp á símana sína. Þarna voru krakkar niður í 12 ára samankomnir til að horfa á alvarlegt ofbeldi, margir höfðu komið með strætó.“
Foreldrar hótuðu að kæra birtingu myndbands
Viðmælandi Stundarinnar segir að upptaka af slagsmálunum hafi verið sett á samfélagsmiðlahóp foreldra í hverfinu í von um að einhverjir foreldranna myndu þar þekkja börn sín og gætu þá tekið á þessu athæfi. Það hefði lítinn árangur borið, viðbrögð margra foreldra hafi verið þau að birting myndbandsins bryti í bága við persónuverndarlög, hótuðu að kæra birtinguna og það var tekið af síðunni.
„Þarna voru krakkar niður í 12 ára samankomnir til að horfa á alvarlegt ofbeldi, margir höfðu komið með strætó“
„Ég tilkynnti þessar síður til Instagram sem tók þær niður vegna birtingar óviðeigandi efnis. En það spretta þá bara upp nýjar síður með svipuðum nöfnum,“ segir foreldrið. „Við verðum að vera meira meðvituð um hvað börnin okkar eru að gera á netimu og hvaða hópum þau eru í á samfélagsmiðlum. Í hópum eins og þessum er verið að vegsama ofbeldismenningu, það getur ekki verið að það sé það sem við viljum.“
Að sögn foreldrisins var lögreglu tilkynnt um atvikið. „En eftir því sem ég best veit, þá hafði þetta engar afleiðingar.“
Athugasemdir