Verkfallsaðgerðir félaga í 15 aðildarfélögum BSRB hefjast 9. mars, hafi samningar ekki tekist fyrir þann tíma. Þetta var niðurstaða atkvæðagreiðslu sem lauk í gær, þar sem 87,6% þeirra sem tóku þátt samþykktu boðun verkfalls.
Verkfallið mun hafa áhrif á starfsemi Landspítala, leik- og grunnskóla og frístundaheimila og um er að ræða bæði tímabundnar og ótímabundnar aðgerðir. Annars vegar mun meirihluti félagsmanna hjá ríkinum, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborg leggja niður störf dagana 9., 10., 17., 18., 24., 26. og 31. mars og 1. apríl. Hins vegar munu smærri hópar starfsmanna fara í ótímabundið verkfall frá og með 9. mars. Meðal þeirra eru starfsmenn í grunnskólum og leiðbeinendur á frístundaheimilum á nær öllu höfuðborgarsvæðinu, auk Akraness.
Í tilkynningu frá BSRB segir að reikna megi með að frístundaheimilin verði lokuð frá upphafi verkfalls. Að auki eru í þessum hópi starfsmenn Ríkisskattstjóra og sýslumannsembætta um allt land.
Hafi samningar ekki tekist fyrir 15. apríl munu félagsmenn aðildarfélaga BSRB, sem starfa hjá ríki og sveitarfélögum, fara í ótímabundið allsherjarverkfall. Félögin hafa verið án kjarasamnings frá 1. apríl í fyrra og munu kjarasamningsviðræður halda áfram.
Að meðaltali tóku um 69% félagsmanna hvers aðildarfélags þátt í atkvæðagreiðslunni. Innan BSRB eru 17 félög , hjá einu félaganna Starfsmannafélagi Garðabæjar var þátttaka í atkvæðagreiðslunni ekki næg. Atkvæðagreiðsla hjá Landssambandi slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna stendur enn yfir.
Sjúkraliðafélagið er eitt þeirra aðildarfélaga BSRB sem samþykkti verkfallsboðunina Um 89,4% þeirra sem tóku þátt í atkvæðagreiðslunni samþykktu boðun verkfalls hjá ríkinu. Um 5,8% voru andvíg boðun verkfalls og 4,7% tóku ekki afstöðu.
Einnig var kosið um verkfallsboðun hjá þeim félagsmönnum sem starfa hjá Akureyrarbæ. Um 90,4% þeirra sem þátt tóku í atkvæðagreiðslunni samþykktu verkfallsboðun.
Athugasemdir