Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kallaði beiðni þingmanna stjórnarandstöðunnar um skýrslu þar sem bornar væru saman greiðlsur Samherja fyrir veiðirétt í Namibíu annars vegar og á Íslandi hins vegar, „ekkert annað en lýðskrum“. Stjórnarþingmenn kölluðu skýrslubeiðnina leikaraskap, popúlisma og sýndarmennsku. Skýrslubeiðinin var engu að síður samþykkt. Níu stjórnarþingmenn greiddu atkvæði á móti því, þar á meðal Bjarni.
Hart var tekist á í umræðum á Alþingi fyrir hádegi í umræðum um hvort heimila ætti beiðni um skýrslu hvar samanburður væri gerður á greiðslum Samherja fyrir veiðirétt í Namibíu og Íslandi. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar var fyrsti flutningsmaður skýrslubeiðninnar en þingmenn úr Viðreisn, Samfylkingu og Pírötum, auk Andrésar Inga Jónssonar sem stendur utan flokka, studdu beiðnina.
Vilja að mútugreiðslur verði reiknaðar með
Í greinargerð með skýrslubeiðninni kom fram að ákvörðun veiðigjalda hefði lengi verið ágreiningsmál í íslenskum stjórnmálum, endurgjald fyrir afnot af sameiginlegri auðlind þjóðarinnar hafi verið háð pólitísku mati. „Það pólitíska mat hefur aftur í verulegum atriðum byggst á áliti þeirra hagsmunaaðila í útgerð sem eru fulltrúar þeirra fyrirtækja sem gjaldið greiða. Með öðrum orðum hafa verið bein tengsl á milli þess sem útgerðirnar hafa talið sig geta greitt og þess sem meiri hluti á Alþingi hverju sinni hefur talið að þær gætu greitt,“ segir í greinargerðinni.
Skýrslubeiðendur telja að best færi á því að fá óháða aðila til að bera saman hvað Samherji væri reiðubúinn til að greiða fyrir veiðirétt í Namibíu annars vegar og á Íslandi hins vegar. Tiltekið er að rétt sé að draga saman bæði beinar greiðslur Samherja fyrir veiðirétt og einnig greiðslur sem inntar voru af hendi beint til aðila sem fóru með úthlutun veiðiréttarins fyrir hönd namibíska ríkisins.
„Hérna er þyrlað upp pólitísku modviðri út af ágreiningsefni sem hefur verið um veiðigjöld á Íslandi“
Stjórnarþingmenn gangrýndu bæði inntak og framsetningu skýrslubeiðninnar á meðan að þingmenn stjórnarandstöðu bentu á að skýrslubeiðnir væru mikilvægur þáttur þegar kæmi að möguleikum þingmanna til að sinna eftirlitshlutverki sínu. Þá var orðalag greinargerðarinnar gagnrýnt af mörgum.
„Þessi skýrslubeiðni eru auðvitað ekkert annað en ákveðið lýðskrum,“ sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra í umræðunum. „Hérna er þyrlað upp pólitísku modviðri út af ágreiningsefni sem hefur verið um veiðigjöld á Íslandi og því haldið fram að útgerðin skammti sér veiðigjöld eftir því sem hún telur að sé hæfilegt hverju sinni. Hérna er verið að rugla saman gerólíkum kerfum og beðið um að þingið samþykki að þessi gerólíku kerfi séu tekin til samanburðar og í samanburðinum séu meintar mútugreiðslur hafðar með í reikningnum til þess að þetta komi sem best út í pólitískri umræðu á Íslandi.“ Sagði Bjarni enn fremur að tillagan væri ekki boðleg og ekki hægt að styðja hana. Hann sá sig svo knúin til að stíga aftur í pontu og ítreka afstöðu sína. „Þessi tillaga er ekkert annað en lýðskrum,“ sagði Bjarni.
Á erindi við almenning
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði að skýrslubeiðnin væri „pólitískur loddarskapur“ og Óli Björn Kárason, Sjálfstæðisflokki, kallaði beiðnina „leikaraskap“.
Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar, benti hins vegar á að upplýsingarnar sem um væri beðið ættu erindi til almennings. „Er útgerðin ekki samkvæm sjálfri sér um það aðgangsgjald sem að hún er reiðubúin að greiða annars staðar samanborið við það aðgangsgjald sem hún er reiðubúin að greiða hér og kvartar hástöfum undan að sé allt of hátt? Sé það raunin að aðgangsgjaldið fyrir skammtíma veiðiheimildir í Namibíu séu tvisvar sinnum hærri heldur en veiðigjöldin hér á landi, þá er það eitthvað sem á erindi við almenning hér á landi.“
Í atkvæðagreiðslu var samþykkt að leggja mætti fram beiðni um umrædda skýrslu með 27 atkvæðum. Tíu greiddu ekki atkvæði en sjö þingmenn sögðu nei, þeir Ásmundur Friðriksson, Bjarni Benediktsson, Brynjar Níelsson, Haraldur Benediktsson, Jón Gunnarsson, Óli Björn Kárason, allir í Sjálfstæðisflokki, og Þórarinn Ingi Pétursson Framsóknarflokki.
Athugasemdir