Við hljótum að trúa því og treysta að á sunnudagskvöldið kemur muni Hildur Guðnadóttir verða kölluð upp á svið Dolby leikhússins í Hollywood og taka þar við Óskarsstyttu fyrir tónlistina í kvikmyndinni Joker. Hún á það alveg örugglega skilið. Ég hef að vísu ekki séð myndina en heyrt helstu brot úr músíkinni hennar og þar er á ferð ósvikin dramatík og alvöru list.
Það er líklega helst að Thomas nokkur Newman gæti veitt Hildi keppni um verðlaunastyttuna en hann er tilnefndur fyrir tónlistina í kvikmyndinni 1917. Newman þessi er fagmaður fram í fingurgóma, hefur verið lengi að og tvennt er það sem gæti fært honum styttuna góðu á kostnað Hildar.
Í fyrsta lagi hefur Newman nú verið tilnefndur alls 15 sinnum til Óskarsverðlauna en aldrei fengið þau. Meðlimum akademíunnar gæti þótt að nú væri einfaldlega komið að honum.
Í öðru lagi virðist straumurinn í verðlaunasjónum þessa vertíðina liggja til myndarinnar 1917 og það er líklegra en hitt að hún sópi að sér Óskarsverðlaunum á sunnudagskvöldið. Newman gæti notið góðs af því þótt músíkin hans í 1917 sé hvergi nærri jafn eftirminnileg og sellótónar Hildar í myndinni Joker.
En það er þetta með myndina 1917. Ég nenni orðið sjaldan í bíó en dreif mig að sjá hana eitt kvöldið sem sérlegur áhugamaður um bæði tilþrifamiklar listrænar stórmyndir og líka heimsstyrjöldina fyrri. Ungur maður, sem ég þekki, hafði hvatt mig eindregið til fararinnar, en hann hafði farið að sjá myndina og orðið agndofa yfir þeirri lýsingu á fánýti stríðsrekstrarins, sem honum fannst myndin vera.
Skemmst er frá því að núna þegar ég hef melt þessa mynd nokkra hríð er niðurstaðan sú að þetta sé vond mynd. Eiginlega alveg furðulega vond miðað við allt það lof sem hún hefur fengið.
Athugasemdir