Tímaritið The New Yorker hefur undanfarið verið að birta greinar um stöðu og vandamál lýðræðis. Í einni slíkri er rifjað upp svar ítalska heimspekingsins Benedetto Croce frá árinu 1937 við spurningunni hvort lýðræði væri á hverfanda hveli. Honum fannst spurningin asnaleg og svaraði eitthvað á þá leið að þetta væri eins og að spyrja hvort hann héldi að það færi að rigna. Hann sagði að það ætti ekki að láta eins og lýðræði væri einhvers konar ytra náttúruafl sem við hefðum enga stjórn á. Þetta væri misskilningur. Lýðræði sprettur af okkar eigin ákvörðunum og engu öðru. Við þurfum bara að gera það upp við okkur hvað við viljum í raun og láta breytni okkar stjórnast af því.
Mér fannst orð Croce vera góð áminning þegar ég las þau. Þessa dagana hef ég mikið verið að hugsa til baka til ársins 2016. Hluti þess árs hjá mér fór í vinnu við bók um íslenskt lýðræði og tilfinningin að lýðræði í heiminum stæði á krossgötum ágerðist eftir því sem leið á árið. Kjör Donalds Trump varð nokkurs konar hátindur á ferli sem hafði staðið um tíma. Það var ekki aðeins Brexit sem hafði vakið ónotatilfinningu hjá manni. Víða um heim, sérstaklega í Asíu og Afríku, mátti sjá æsingamenn taka yfir lýðræðislega umræðu. Samskiptamiðlar sem höfðu verið dásamaðir í hinu svokallaða arabíska vori, og fyrr við kjör Baracks Obama, voru nú miskunnarlaust notaðir til að dreifa lygum og rugla í kjósendum.
Ein ástæða þess að þetta hefur verið mér ofarlega í huga er að ég hef verið að lesa nýlega bók, Mindf*ck: Cambridge Analytica And the Plot To Break America. Bókin, sem skrifuð er af innanbúðarmanni í hræringunum 2016, lýsir því hvernig við færðumst hratt frá dýrðardögum samskiptamiðla til hreinnar dystópíu þar sem lýðræðinu stóð hrein ógn af þessum miðlum og þeim upplýsingum sem fyrirtækin á bakvið þá höfðu undir höndum. Auðvitað áttu viðvörunarbjöllur að hringja hjá öllum. Það sem áður var talið glæpsamlegt var allt í einu talið viðtekið. Hefðum við sætt okkur áður við að pósturinn okkar hefði lesið öll bréf og tekið afrit eða að hinir og þessir hefðu sett á okkur staðsetningartæki eða hlustunarbúnað án dómsúrskurðar? Og að þessar upplýsingar væru að lokum notaðar í pólitískum tilgangi?
„Maður hefði vonað að íslenskur stjórnmálamaður myndi aldrei leggjast í slíkan pytt kynþáttahyggju og samsærisóráðs“
Íslensk stjórnmál hafa ekki farið varhluta af þessari þróun þar sem atgangur stjórnmálamanna var sérsniðinn að mögulegum hlustendum. Og margt af því ljótasta sem erlendir forgöngumenn hins nýja landslags höfðu kokkað upp til að æsa upp almenning skilaði sér hingað. Að mínu áliti er sorglegasta dæmið um það þegar Sigmundur Gunnlaugsson kastaði fram furðulegum og órökstuddum staðhæfingum um Georg Soros í umræðum um Panamaskjölin. Maður hefði vonað að íslenskur stjórnmálamaður myndi aldrei leggjast í slíkan pytt kynþáttahyggju og samsærisóráðs. En Sigmundur komst furðu vel upp með það og þurfti lítið að svara fyrir ósannindin. Og hann náði til þeirra sem hann ætlaði sér með þessum málflutningi.
Ísland?
Það má kannski segja að það borgi sig ekki að horfa of mikið á íslenskt samhengi í þessu máli. Staða lýðræðis sé augljóslega alþjóðlegur vandi. En sú spurning leitar hins vegar oft á mann hvort við getum ekki eflt varnir okkar. Að við gerum það sem Croce hvatti til og látum sameiginlegar skynsamlegar ákvarðanir vera það sem í raun skapar íslenskt lýðræði og viðheldur því. En hver veit nema það sé kannski borin von. Í nýlegri tilraun sinni til að taka yfir umræðuna og auglýsa sjálfan sig velti Kári Stefánsson því fyrir sér hvort Íslendingar væru sérstaklega heimsk þjóð. Hann var reyndar að ræða það í ákveðnu samhengi og í sjálfu sér er ekkert sem bendir til þess að við séum heimskari en gengur og gerist. En stundum læðist hins vegar að manni sá grunur að við séum nokkuð andvaralaus. Þeir sem leiða opinbera umræðu fá oft of lengi að hræra í okkur óáreittir. Við gætum tekið áðurnefndan Kára sem dæmi. Hann er gríðarlega áberandi í opinberri umræðu og tekst býsna vel að fela hverra hagsmuna hann er að gæta. Fyrirtæki hans er í eigu alþjóðlegs auðhrings á sviði lyfjaiðnaðar. Það er ágætlega þekkt hvernig sá iðnaður berst gegn eftirliti og fyrir aukinni sjúkdómavæðingu. Margt af því sem Kári skrifar um þyrfti að skoðast í því ljósi.
„Þeir sem leiða opinbera umræðu fá oft of lengi að hræra í okkur óáreittir“
Þá spyr kannski einhver hvort ég sé að gefa það í skyn að það sé siðferðileg skylda Kára að vera opnari með hverra hagsmuna hann er ráðinn til að gæta? Ég er ekki endilega viss um það. Þegar öllu er á botninn hvolft er hann nokkurs konar deildarstjóri í miklu stærra fyrirtæki. Almenningur getur fyrst og fremst gert siðferðilegar kröfur til þeirra sem eru raunverulega í forsvari. Og almenningur getur gert kröfur til ákveðinna starfsstétta. Ef Kári væri heilbrigðisstarfsmaður væru siðferðilegar skyldur hans aðrar. Hinn lýðræðislegi vinkill sem ég er að reyna að draga fram hérna er að ég tel það vera skyldu okkar allra – sameiginlegt verkefni – að vera gagnrýnin í hugarfari og kalla eftir auknum upplýsingum í opinberri umræðu sem varðar sameiginlega hagsmuni. Og það er einnig hluti af þeirri skyldu að sjá sameiginlega til þess að aðstæður séu fyrir hendi þar sem hægt er að kalla eftir frekari upplýsingum og að kalla þá til ábyrgðar sem fara með rangt mál.
Lýðræði snýst ekki bara um kosningar. Lýðræði snýst um það hvernig við högum okkar sameiginlegu málum öllum stundum. Grunnhugmyndin felst í því (og er líklega það sem Croce átti við) að við eigum lýðræðið saman. Lýðræði er öll sú samræða sem á sér stað í samfélaginu á hverri stundu: fyrir, eftir og á milli kosninga. Verkefni okkar allra er að reyna að vera eins gagnrýnin og okkur er frekast unnt. Við gerum það með því að vera árvökul og ígrunda hvert það mál sem er efst á baugi. Það er í raun skilgreiningaratriði á því sem er kallað gagnrýnin hugsun að við séum athugul á allar hliðar hvers máls. En vissulega felur þetta í sér áreynslu. Og slík hugsun reynir á eftirtekt okkar og hugargetu. Með reglulegu bili í sögunni virðist sem illa gangi að halda þessari árvekni við. Ég nefndi hér í upphafi að núna sé verið að rifja upp orð heimspekinga á millistríðsárunum um hætturnar sem steðjuðu að lýðræðinu. Þau gildi sem Croce, Bertrand Russell og fleiri boðuðu ásamt fleirum sem svör við ástandinu eiga sérlega vel við í dag.
En það er ekki eins og slíkt sé hafið yfir vafa í augum allra. Það er ekki laust við að óþolinmæði og tortryggni gæti í garð hefðbundinna heimspekilegra gilda. Í stað þess að fylkja sér bakvið þá hugsun að mikilvægasta svarið við vanda lýðræðis í samtímanum sé að fólk láti síður gabbast hefur sjálf skynsemin orðið að skotspón. Jafnvel námsbraut í heimspeki við Háskóla Íslands hefur róið á þau mið. Á undanförnum árum hafa nýútskrifaðir doktorar í heimspeki birt greinar þar sem lítið er gert úr vangaveltum um hvernig megi efla gagnrýna hugsun innan skólakerfisins, þar sem efast er um að skilningur eigi að vera markmið hugsunarinnar og þar sem við erum hvött til að gera meira úr upplifunum okkar á hlutum heldur en því hvernig á að greina aðalatriði frá aukaatriðum. Og eitt helsta rannsóknarverkefnið innan námsbrautarinnar snýst um svokallaða líkamlega gagnrýna hugsun þar sem á að nýta þekkingu líkamans til að tengjast flóknum vef tilfinningalegrar uppsprettu hugsunarinnar. Áherslan á að vera á líkamlegar víddir, eins og sagt er, fremur en þau hefðbundnu atriði sem Croce og Russell töluðu fyrir. Það skal tekið fram að ekkert af þessu er endilega sett fram til greiningar á lýðræði eða lýðræðisþátttöku, en þó er ávallt tekið fram að á þessu sé pólitískur eða siðfræðilegur vinkill.
Lýðræði og gagnrýnin hugsun
En er ástandið í samtímanum ekki einmitt dæmi um að eldri aðferðir hafi brugðist – að við þurfum á nýrri nálgun að halda? Eigum við ekki einmitt að prófa eitthvað annað? Var það ekki rökhugsun og tæknihyggja sem kom okkur á þennan stað í samtímanum? Í þessu kann að virðast sannleikskorn. Þeir voru býsna klárir og röklega þenkjandi strákarnir hjá Cambridge Analytica, eins og lýst er í Mindf*ck. Þó sýnist mér að um ákveðna hugsunarvillu sé að ræða. Það er ekki við skynsemina að sakast þótt skynsamir menn gerist sekir um afglöp. Vandamál starfsmanna Facebook og Cambridge Analytica, eins og kemur skýrt fram í bókinni, var að þeir voru einmitt ekki athugulir á allar hliðar málsins. Til að mynda ígrundaði enginn þeirra hvaða afleiðingar athafnir þeirra gætu haft á lýðræði. Þær hugsanir eru fyrst að koma fram nýlega og þá í baksýnisspeglinum. Fátt bendir raunar til þess að við séum betur sett með að leggja áherslu á reynslu okkar og tilfinningar í tækniumhverfi samtímans. Ef einhvern lærdóm má draga frá árinu 2016 þá er það hvernig nú er spilað á tilfinningar okkar og reynslu með skipulögðum og útsmognum hætti. Við erum fremur varnarlaus eftir að hafa sjálfviljug gefið þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að leika á okkur og gabba. Ég efast um að skilyrðislaust traust á eigin tilfinningum, skynreynslu og innsæi sé besta vörnin.
„Við erum fremur varnarlaus eftir að hafa sjálfviljug gefið þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að leika á okkur og gabba“
Og í hverju ætti þá vörnin að felast? Í sem stystu máli felst hún í því sem áður hefur verið sagt – að við séum athugul á allar hliðar þeirra mála sem eru borin á borð fyrir okkur. Besta leiðin til þess er að kunna handbók lýðskrumarans. Þrátt fyrir að tæknin til að greina veiku blettina á okkur hafi eflst er aðferðafræðin til að nýta sér þessa bletti býsna vel þekkt. Þvælarar og lýðskrumarar allra landa reyna að stjórna því hvað er til umræðu. Þeir reyna að leyna hagsmunum sínum og til hvaða hóps þeir eru að tala. Þeim er sama um mótsagnakenndan málflutning, það er ekkert sem kemur í veg fyrir að þeir segi eitt í dag og annað á morgun. Þeir reyna að endurskilgreina hugtök og taka þannig völd í umræðunni. Þeir treysta á að við leggjum okkur ekki fram við að athuga sannleiksgildi fullyrðinga eða gögnin sem eiga að styðja þær. Og þeir nota mælskubrögð sem þeim eru kennd af sérfræðingum á því sviði. Maður þarf ekki að leggja mikið á sig til að læra nokkra tugi slíkra bragða. Maður þarf í raun ekki að vera neitt sérstaklega góður í að beita mælskubrögðunum þegar hægt er að gera ráð fyrir að áhorfendur og hlustendur hafi ekki fengið þjálfun í að bera kennsl á þau.
En það að kunna að bera kennsl á og greina þessi atriði dugir raunar ekki ef við ætlum okkur að ná aftur tökum á lýðræðinu. Stærsta áskorunin við gagnrýna hugsun er að fletta ofan af því þegar stjórnmálamenn slökkva í raun alla von í brjóstum fólks og reyna að magna upp handvalin atriði sem fólki er talin trú um að séu sérlega aðkallandi. Þetta telja þeir svo mikilvægt þar sem þeir vita að maður getur ekki haft gerræðislega stjórn á þeim sem eiga sér von um betri tilveru eða mannúðlegra samfélag. Ef við ætlum að vera athugul á allar hliðar hvers máls þá þurfum við að horfa fram á veginn. Til að styrkja lýðræðið þurfum við að temja okkur – eða leyfa okkur – að ígrunda hvernig við viljum hafa samfélag okkar í framtíðinni: hvernig samfélag okkar ætti að vera. Það er í þessum vangaveltum sem kjarni lýðræðisins felst. Við eigum þennan kjarna saman og það getur enginn hrifsað hann til sín. Það er einungis þegar okkur skortir dug til að vera virkir þátttakendur í þessum umræðum sem kjarninn virðist vera eins og hvert annað náttúrulögmál sem við höfum enga stjórn á.
Athugasemdir