Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 5 árum.

Fjáröflun vegna gróðurelda og göldrótt urta

Tón­leik­ar, við­burð­ir og sýn­ing­ar 7.–20. fe­brú­ar.

Fjáröflun vegna gróðurelda og göldrótt urta

Þetta og svo ótal margt fleira er á döfinni næstu tvær vikurnar.

Vetrarhátíð 2020

Hvar? Höfuðborgarsvæðið
Hvenær? 6.–9. febrúar
Aðgangseyrir: Fer eftir viðburði.

Á hinni árlegu Vetrarhátíð fær myrkrið að njóta sín og fjöldi listamanna heldur sérstakar sýningar og viðburði. Á föstudag er Safnanótt, en þá bjóða fjölmörg söfn upp á fjölbreytta dagskrá og er ókeypis aðgangur frá klukkan 18.00. Á laugardaginn er Sundlauganótt þar sem ellefu sundlaugar gera slíkt hið sama. Auk þess fara fram ýmsir viðburðir, eins og Truflað landslag í Gallerí Port þar sem Atli Bollason bjagar og skælir sjónvarpssnjó með skapandi merkjavinnslu, Stjörnu-Sævar fer með leiðsögn fyrir börn í Bókasafni Mosfellsbæjar þar sem hann segir frá stjörnunum yfir Íslandi, Ótrúlega mannleg sýning í Ásmundarsal þar sem Are We Studio? túlkar mistök á listrænan máta, og fleiri sýningar.

Fjáröflunarkvöld vegna gróðurelda í Ástralíu

Hvar? Gaukurinn
Hvenær? 7. febrúar kl. 22.00
Aðgangseyrir: 2.000 kr.

Þúsundir einstaklinga hafa misst heimili sín og óheyrilegur fjöldi dýra hefur látist vegna gróðurelda sem geisa í ástralska fylkinu Nýja Suður-Wales. Hópur af listamönnum leggjast á eitt í fjáröflun fyrir fórnarlömbin. Meðal þeirra eru grínistarnir Jono Duffy og Kimi Tayler, dragdrottningin Jenny Purr og -konungurinn HANS, og tónlistarmennirnir SAKARIS og Högni.

Að fanga kjarnann

Hvar? Listasafn Íslands
Hvenær? 7. febrúar–3. maí
Aðgangseyrir: 2.000 kr.

Sænski listamaðurinn Mats Gustafson fangar hverfulleika vatnslitarins af einstakri næmni. Á áttunda áratugnum hóf hann að vinna myndir fyrir tískuheiminn en helgaði sig æ meira eigin listsköpun þegar fram í sótti. Í verkum sínum sveiflast listamaðurinn af mikilli leikni milli tískuheimsins, náttúrunnar og könnunar á umhverfinu. 

Gaddavír, Dead Herring, GÓÐxÆRI

Hvar? R6013
Hvenær? 9. febrúar kl. 18.00
Aðgangseyrir: Frjáls framlög

Aðdáendur harðkjarna og erfiðrar tónlistar þurfa ekki að leita lengra til að sjá þrjár af áhugaverðustu sveitunum í senunni, en þær eru á leið í Evróputúr. Gaddavír spilar háværa og hraða tónlist af mikilli færni, Dead Herring fremur hljóðbylgjugjörning þar sem karllægir og kvenlegir eiginleikar takast á og GÓÐxÆRI flytur andfasískt iðnaðarkraftofbeldi.

Svartir sunnudagar: Requiem for a Dream

Hvar? Bíó Paradís
Hvenær? 9. febrúar kl. 20.00
Aðgangseyrir: 1.800 kr.

Harmleikurinn eftirminnilegi Requiem for a Dream eftir leikstjórann Darren Aranofsky hefur fyrir löngu öðlast sess sem költ-mynd, en hún segir sögu fjögurra einstaklinga sem leiðast út á braut vímuefna með skelfilegum afleiðingum. Taka þarf fram að myndin er alls ekki fyrir viðkvæmar sálir.

Teitur Magnússon & Æðisgengið

Hvar? Röntgen
Hvenær? 12. febrúar kl. 20.00
Aðgangseyrir: 2.900 kr.

Skeggprúði þjóðlagatöframaðurinn Teitur Magnússon heldur messur tileinkaðar draumum og góða lífinu á hverjum tónleikum. Teitur var lengi vel einn af tveimur söngvurum í reggí-hljómsveitinni Ojba Rasta, en hinn söngvarinn, Arnljótur Sigurðsson, hitar einmitt upp fyrir þessa tónleika sem Kraftgalli. Tónleikarnir fara fram í litlum sal og er nánd við flytjendur því mikil.

Af fingrum fram: Sigríður Thorlacius

Hvar? Salurinn
Hvenær? 13. & 20. febrúar kl. 20.30
Aðgangseyrir: Frá 4.950 kr.

Sigríður Thorlacius er ein af ástsælustu söngkonum þjóðarinnar, en hún hefur afrekað ansi margt bæði með hljómsveitunum sínum Hjaltalín og GÓSS og ein síns liðs. Hún mætir í Salinn þar sem hún tekur þátt í spjalltónleikaröðinni Af fingrum fram þar sem tónlistarflutningur og viðtal í beinni tvinnast saman.

Valentínusar Drag-Súgur

Hvar? Gaukurinn
Hvenær? 14. febrúar kl. 21.30
Aðgangseyrir: 2.900 kr.

Dragdrottningarnar og -konungarnir í hópnum Drag-Súgur fagna degi ástarinnar eins og hann var skapaður af auglýsingastofum: með pomp og prakt. Búast má við atriðum fullum af gríni og glensi, samfélagsádeilu, metnaðarfullum tilþrifum og hugsanlega ofgnótt af gordjöss dans- og söngatriðum.

Sæhjarta

Hvar? Tjarnarbíó
Hvenær? 14., 19. & 27. febrúar kl. 20.00
Aðgangseyrir: 4.400 kr.

Sæhjarta endurskapar og endurvekur gömlu sögurnar um urturnar sem komu á land og fóru úr selshamnum til að búa og elska meðal manna. Í þessu leikriti verður dularfull kona rekalda á drungalegri strönd, en hennar margslungna furðusaga er sögð með blöndu brúðuleiks og hefðbundins leikhúss. Sýningin er ætluð fullorðnum.

Sol LeWitt yfirlitssýning

Hvar? Hafnarhúsið
Hvenær? 15. febrúar–24. maí 
Aðgangseyrir: 1.840 kr.

Bandaríski listamaðurinn Sol heitinn LeWitt er gjarnan talinn vera einn helsti frumkvöðull hugmyndalistarinnar, en í henni eru allar ákvarðanir og skipulag listaverksins fyrirfram ákveðið og verkið verður alltént til úr gangverki hugmyndarinnar. Þetta er í fyrsta sinn sem yfirlitssýning með verkum hans ratar á Íslandsstrendur.

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.
Tengdar greinar

Stundarskráin

Mest lesið

Segja hugmyndir um einföldun regluverks alls ekki fela í sér einföldun
5
Fréttir

Segja hug­mynd­ir um ein­föld­un reglu­verks alls ekki fela í sér ein­föld­un

Fé­lag heil­brigð­is- og um­hverf­is­full­trúa leggst gegn breyt­ing­um á eft­ir­litsum­hverfi fyr­ir­tækja sem ráð­herr­ar kynntu í vik­unni og mót­mæl­ir því að þær feli í sér ein­föld­un eft­ir­lits. Þá sýni til­lög­ur rík­is­stjórn­ar­inn­ar „mik­ið skiln­ings­leysi á mála­flokkn­um og þeim fjöl­breyttu verk­efn­um sem heil­brigðis­eft­ir­lit sinn­ir“.

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Mest lesið í mánuðinum

„Ég er mjög stolt af því að hafa tekið þennan slag“
5
Fréttir

„Ég er mjög stolt af því að hafa tek­ið þenn­an slag“

Mann­rétt­inda­dóm­stóll Evr­ópu komst í dag að þeirri nið­ur­stöðu að ís­lenska rík­ið hefði ekki brot­ið á Bryn­dísi Ásmunds­dótt­ur. Hún seg­ir skrít­ið að tala um tap þeg­ar Mann­rétt­inda­dóm­stóll Evr­ópu veitti henni áheyrn. Nú geti hún loks náð and­an­um. Mark­mið­um um að vekja máls á brota­löm­um í ís­lensku rétt­ar­kerfi hafi náðst, ekki síst þeg­ar sig­ur vannst í öðru mál­inu.

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár