Stefán Eiríksson hefur verið ráðinn útvarpsstjóri Ríkisútvarpsins. Stefán hefur fram til þessa verið borgarritari Reykjavíkurborgar en var áður sviðsstjóri velferðarsviðs borgarinnar og þar áður lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu.
Stefán er ráðinn til fimm ára og tekur hann við af Magnúsi Geir Þórðarssyni sem lét af störfum á síðasta ári í kjölfar þess að hann var skipaður Þjóðleikhússtjóri.
Stefán er menntaður lögfræðingur, lauk embættisprófi frá Háskóla Íslands árið 1996 og hdl. prófi árið 1997. Hann hefur auk þess lokið sérhæfðu stjórnendanámi Bloomberg Harvard City Leadership Initiative.
Stefán starfaði sem blaðamaður á Tímanum á árunum 1990 til 1991 og á Morgunablaðinu á árunum 1991 til 1996, samhliða námi. Stefán starfaði í sendiráði Íslands í Brussel á árunum 1999 til 2001 en var svo skipaður skrifstofustjóri dómsmála- og löggæsluskrifstofu, dóms- og kirkjumálaráðuneytisins 2002. Hann var skipaður lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu 15. júlí 2006 og gegndi því embætti til ársins 2014, þegar hann var ráðinn sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar. Hann var síðan ráðinn borgarritari í desember 2016 og hefur gegnt hlutverki staðgengils borgarstjóra.
Stefán tekur formlega við starfinu 1. mars næstkomandi.
Meðal þeirra sem óska Stefáni velfarnaðar er Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík. „Það er ástæða til að óska Ríkisútvarpinu og stjórn Rúv ohf. til hamingju með þessa ákvörðum. Stefán Eiríksson er sannarlega fengur fyrir útvarpið og að sama skapi skilur hann eftir sig skarð sem nú þarf að fylla hjá borginni. Hann hefur verið frábær samstarfsmaður, fyrst sem lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, síðan sviðsstjóri velferðarsviðs borgarinnar og síðast en ekki síst sem borgarritari og staðgengill borgarstjóra. Hann fékk því mín bestu meðmæli þegar eftir því var leitað, enda á Stefán ekki annað skilið: frábær og traustur samstarfsmaður, leiðtogi og heilsteypt manneskja svo fátt eitt sé talið - og fjári skemmtilegur í þokkabót. Til hamingju Rúv og gangi þér allt að sólu, kæri Stebbi!“
Athugasemdir