Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, hefur sent kveðjur vestur á firði og þakkir til viðbragðsaaðila sem brugðust við eftir að snjóflóðinu féllu á Flateyri og í Súgandafirði. „Á þessum stundum sannast gildi samstöðu og samkenndar.“
Guðni birti yfirlýsingu sína á Facebook nú fyrir skömmu. „Blessunarlega varð ekki mannskaði, annað tjón er unnt að bæta,“ skrifar Guðni og upplýsir jafnframt að hann hafi á reglubundnum fundi með Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra fengið frá henni upplýsingar um stöðu mála fyrir vestan sem hún hafi sjálf fengið á fundi með almannavörun í morgun.
„Enn vorum við minnt á ægimátt náttúruaflanna. Um leið sönnuðu gildi sitt varnargarðarnir, sem reistir voru á Flateyri eftir flóðið mikla fyrir aldarfjórðungi, þótt litlu hafi mátt muna nú – slíkur var hamfarakrafturinn þar,“ skrifar Guðni og ítrekar kveðjur sínar og þakkir.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra birti einnig færslu á Facebook síðu sinni í morgun og bendir á hversu mikilvægt var að varðskipið Þór hafi verið sent verstu vegna slæmrar veðurspár. Snjóflóðin á Flateyri og í Súgandafirði væru miklar hamfarir og stjórnvöld muni fylgjast grannt með.
„Heyrði í nokkrum Vestfirðingum í morgun sem allir voru slegnir. Flóðin 1995 rifjast upp og það skelfilega manntjón sem varð þá. Heyrði líka í nokkrum kærum vinum að vestan og fann hversu þungt þessir atburðir lögðust á þá. Í dag erum við öll Vestfirðingar,“ skrifar forsætisráðherra.
Athugasemdir