Tólf mánuðir af stöðugum þroska, breytingum og ákvörðunum. En hvað stend ég uppi með núna þegar árið er að líða?
Frá því að maður er lítill er manni alltaf sagt að elta drauma sína, en þetta eru bara orð þar til að þau fá merkingu. Og ég lét þessi orð fá merkingu árið 2019. Ég stóð efst í brekkunni og ýtti niður hana fullt af snjóboltum. Sumir fóru ekki lengra en nokkra metra á meðan aðrir fóru heilu kílómetrana. Allir snjóboltarnir innihéldu verkefni sem mig hafði dreymt um að framkvæma til lengri eða styttri tíma. Þetta eru nokkrir af þeim snjóboltum sem drifu langt.
Ég fékk dömubindi á skólaklósettið, fékk önnur ungmenni til þess að blogga á bloggsíðunni minni, fékk mér vinnu, gerði þáttaseríu fyrir RÚV, kom mér inn í ungmennaráð Samfés, byrjaði með útvarpsþætti á Rás 1, kynntist fullt af dýrmætu fólki, gerði sjálf jóladagatal fyrir RÚV og tók mikinn andlegan og líkamlegan þroska.
En litlu sigranir eru þarna líka. Meðal þeirra eru: Ég fann mér rétt ilmvatn, ég fékk í fyrsta skiptið útborgað, náði afturábak kollhnís yfir hægri öxl rétt fyrir nútímadansprófið, get verið í kalda pottinum lengur en fjórar mínútur og fann minn innri styrk í gegnum rautt naglalakk.
Og snjóboltarnir sem drifu lengst voru líka þeir sem stoppuðu efst í brekkunni og þurftu bara smá spark á eftir sér. Allt tekur mislangan tíma og maður má heldur ekki brjóta sig niður fyrir hlutina sem ganga ekki upp.
Ég get sko heldur betur klappað mér á öxlina fyrir hugarfarið sem ég setti mér í byrjun árs og hefur skipað svo gífurlegan stóran sess í mínu daglega lífi. Ég hafði bullandi trú á mér frá fyrsta janúar á öllum mínum verkefnum og draumum sem síðan seinna meir ég myndi vera stolt af.
En maður getur ekki gert neitt einn og ef ekki væri fyrir foreldra mína þá væri ég ekki á þeim stað sem ég er á í dag. Takk fyrir að hafa bullandi trú á mér og vera mín hægri hönd í öllu sem ég tek mér fyrir hendur. Og vera minn besti og harðasti gagnrýnandi, það hefur líka fleytt mér heldur betur langt.
En það sem ég þarf að passa árið 2020 er of mikið álag. Er núna að þjálfa mig daglega í að læra segja nei, taka ekki við öllum verkefnum sem fást og fókusa á mig. Hljómar mjög klisjulega en, halló! ég vil ekki vera 14 ára og lenda í kulnun í starfi, fullorðna fólkið talar að minnsta kosti um það.
Ég vil hvetja ykkur, kæru lesendur, til þess að skrifa niður alla þá drauma og markmið sem þið hafið. Maður uppsker eins og maður sáir og þú getur eignað þér næsta ár með réttu hugarfari og bullandi trú.
Kveðja, ein sem hafði ekki trúað fyrir ári að ég væri á þeim stað sem ég er á í dag, ég kalla mig Saga María Sæþórsdóttir.
Athugasemdir