„Þetta bréf hans er algjör viðbjóður, ofan í allt það sem á undan hefur gengið þá dirfist hann til þess að leitast eftir refsingu á vegum Evrópuráðsþingsins gagnvart Sunnu,“ skrifar Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, um Ásmund Friðriksson, þingmann Sjálfstæðisflokks í færslu á Facebook í dag. „Þvílíka og aðra eins mannleysu hef ég aldrei á ævi minni hitt.“
Ásmundur sendi forseta Evrópuráðsþingsins erindi þar sem hann lét vita af broti Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur, þingmanns Pírata, á siðareglum Alþingis. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.
Siðanefnd Alþingis komst að þeirri niðurstöðu í vor að Þórhildur Sunna hefði brotið gegn siðareglum fyrir alþingismenn þegar hún sagði í Silfrinu þann 25. febrúar 2018 að uppi væri rökstuddur grunur um að Ásmundur hefði dregið sér fé. Vörðuðu ummælin 4,6 milljón króna endurgreiðslur á aksturskostnaði Ásmundar. Forsætisnefnd féllst í kjölfarið á niðurstöðu nefndarinnar.
„Engar áhyggjur krakkar, það er ekki bannað að tala um spillingu í Evrópuráðsþinginu öfugt við það íslenska,“ skrifaði Þórhildur Sunna í færslu á Facebook í dag.
Björn Leví reis samflokksmanni sínum til varnar á Facebook í dag. „Þetta mál hingað til hefur verið einn risavaxinn farsi sem byrjaði á sjálfsagðri beiðni um rannsókn á aksturskostnaði þingmanna eftir svar sem ég fékk frá forseta Alþingis, þar sem sást að starfskostnaður þingmanna jókst tilfinnanlega rétt fyrir kosningar,“ skrifar hann. „Samkvæmt lögum á þingmaður einungis að geta fengið endurgreitt vegna kostnaðar sem hlýst vegna starfa. Að flakka fram og til baka á kosningafundi sem frambjóðandi eru ekki þingstörf. Að nota ráðherrabíl til þess eins og núverandi fjármálaráðherra gerði passar ekki heldur við þær reglur.“
„Ég veit ekki hvort er verra, að vera svona heimskur eða vera svona vondur nema hvort tveggja sé“
Segir hann ljóst að Ásmundur sjálfur hafi viðurkennt að hluti af greiðslunum hafi verið vafasamar og að hann hafi endurgreitt 180 þúsund krónur vegna þess. „Ásmundur Friðriksson er lýðskrumari af verstu gerð. Heimsóknir hans út um allt kjördæmið eru ekkert annað en atkvæðaveiðar sem kosta himinháar upphæðir í akstursgreiðslur og skila engu í þingstörfin. Skilningsleysið gagnvart þeirri málsmeðferð sem var í þessu máli í forsætisnefnd og siðanefnd hér á landi hentar honum auðvitað gríðarlega vel. Það skilningsleysi er annað hvort einlægt, sem segir þá sitt um gáfur (eða skort á þeim) eða þá að það er viljandi, sem segir þá sitt um hans innri mann. Ég veit ekki hvort er verra, að vera svona heimskur eða vera svona vondur nema hvort tveggja sé.“
Björn Leví segir siðanefnd Alþingis hafa verið „í ruglinu“ við afgreiðslu málsins og sömuleiðis meirihluta forsætisnefndar fyrir að hafa ekki tekið tillit til sannleiksgildis ummæla Þórhildar Sunnu. „Undir engum kringumstæðum þá getur það talist brot á siðareglum að segja satt. Því skiptir mjög miklu máli hvort Sunna sagði satt eða ekki og meti nú hver fyrir sig miðað við játningu Ásmundar og endurgreiðslu hans á vafasömum kostnaðargreiðslum. Allir sem eru ekki hlutdrægir í málinu ættu að sjá hið augljósa, Sunna var nákvæm og málefnaleg í gagnrýni sinni í þessu máli.“
Loks segist hann ekki skammast sín fyrir að „hrauna yfir Ása“ og að skrifin hafi verið með fullri yfirvegun. „Kannski finnst þetta einhverjum óvægin gagnrýni. Þá er það bara nákvæmur skilningur á því sem ég er að reyna að segja. Ég skil ekki af hverju ég ætti að halda eitthvað aftur af skoðunum mínum í þessu máli. Það gerir nákvæmlega ekkert fyrir heiðarleika að halda aftur af gagnrýni í þessu máli, svo alvarlegt er það. Að því sögðu. Gleðileg jól.“
Athugasemdir