Þrjú falleg orð: samviska, samkennd og samhengi.
Þegar ég var lítil hélt ég að orðið samviska væri skrifað „skammviska“ og að það merkti óbærileg viska um það að verða skömmuð. Eins og þið getið væntanlega lesið á milli línanna hafði ég ýmislegt á samviskunni sem barn sem skýrir þessa túlkun mína. Ég var til að mynda með brennifíkn og hér með upplýsist að ástæðan fyrir ítrekuðum sinubrunum við Ægisíðu á níunda áratugnum, var ég. Ég var augnabrúnalaus á þessum árum enda hætti ég mér iðulega of nálægt eldinum til að búa til skjól fyrir hafgolunni á meðan ég mundaði eldspýtustokkinn og krumpuð dagblöð til að tendra upp í gulnuðum stráum. Á svipuðum tíma þróaði ég einnig með mér nokkuð sannfærandi spilafíkn í Rauða kross-kassa í hverfissjoppunni, þetta leiddi af sér vasaþjófnað á klinki úr yfirhöfnum foreldra minna og eldri systkina. Ég játa þetta hér með allt saman.
Samkennd er móteitrið við þeirri gegndarlausu áherslu sem samfélagið leggur bæði beint og óbeint á samkeppni. Börnum er kennt frá unga aldri að bera sig saman við hvert annað í gegnum einkunnir, íþróttir og fleira. Ekki skánar það þegar við verðum eldri. Stundum er eins og lífið sé eitt allsherjar kapphlaup. Klisjan um að sá sigri sem á mest af hlutum þegar hann drepst er lífseig af ástæðu.
Einmitt þess vegna er ástæða til að staldra við þegar man sér að leikskólakennari hefur gefið sér stund til þess að skrifa „Gleðihorfur“ í veðurfréttastíl á tússtöflu á vinnustaðnum sínum (sjá mynd). Ég veit að einstaklingurinn sem þetta skrifaði hefur ýmislegt íþyngjandi á sinni könnu. En samt kom hún þessi lygna stund þegar hugurinn fékk að fara á flug og yrkja lítinn og húmorískan óð til kærleikans. Tilgangurinn var sennilega aðeins sá að framkalla bros og vellíðan hjá þeim sem lásu orðin. Í öllu falli sýna þessar töflufréttir mikla samkennd, bæði bókstaflega með því að fjalla með jákvæðum hætti um tilfinningalega veðráttu leikskólabarna á aðventunni. En samkenndin felst ekki síður í þeirri staðreynd að þarna tók manneskja sér andartak til þess að búa til eitthvað fallegt öðrum til gleði. Ég held að margföldunaráhrifin sem svona gjörðir hafa verði aldrei að fullu metnar.
Að lokum er samhengið mikilvægt. Rétt eins og margir aðrir Reykvíkingar hef ég þjáðst af einhverju sem mætti kalla „höfuðborgarsamviskubit“ undanfarið í kjölfar þess að landsbyggðin gekk í gegnum ömurlegar hremmingar í nýafstöðnu óveðri. Hér í bænum kvörtum við yfir að götur séu ekki nægilega vel mokaðar á meðan fólk var án rafmagns í marga daga annars staðar á okkar ríka og háþróaða landi. Veðrið kostaði líf, þar en ekki hér.
„Það er jú auðvelt að stjórna sundurlyndri þjóð“
Það er að mínu viti staðreynd að á milli okkar allra eru tengingar. Þessar tengingar eru missterkar og eiga skýrast við um okkar nánustu en ég held að sama gildi einnig á milli fólks sem þekkist ekki. Þjáning einnar manneskju, hvort sem það er sveltandi barn á suðurhveli jarðar eða fjölskylda á Norðurlandi sem er að frjósa úr kulda á heimili sínu, er hvorki mér né öðrum manneskjum óviðkomandi. Það hentar hins vegar því kerfi sem keyrir á neyslu og græðgi vel að við hugsum fyrst og fremst um líf okkar og gjörðir út frá því að vera sjálfstæðir einstaklingar sem er ætlað að gera aðeins það sem er líklegast til að auka hamingju og ríkidæmi okkar sjálfra. Þeir sem ásælast völd í þeim tilgangi að viðhalda þessu græðgisdrifna kerfi hafa hag af því að við myndum hópa og örgumst út í hvert annað. Það er jú auðvelt að stjórna sundurlyndri þjóð. Það er hins vegar mjög erfitt að líta fram hjá þeirri staðreynd að þegar öllu er á botninn hvolft er mun fleira sem sameinar okkur, sem hér búum, heldur en sundrar okkur. Við erum augljóslega háð hvert öðru eins og sást vel í því hamfaraveðri sem gekk yfir landið um daginn. Það mætti því segja að það sé sérstaklega skýrt samhengi á milli okkar sem saman höngum á Íslandi. Það er óásættanlegt út frá þessu samhengi að innviðir landsbyggðarinnar og heilbrigðiskerfið okkar séu fjársvelt á meðan örfáir einstaklingar taka til sín ofurarð fyrir að nýta auðlindir sem eru samkvæmt lögum þjóðareign. Það að bláfátæk þjóð svelti á meðan íslenskt útgerðarfyrirtæki sópar upp auðlindum hennar og flytji svo allan ágóðann í skattaskjól, er svo önnur vídd af ofbeldi sem augljóslega misbýður okkur í öllu samhengi. Þess skal hér getið að nú eru rúm sjö ár frá því að kjósendur sögðu í þjóðaratkvæðagreiðslu að leggja skyldi nýju stjórnarskrána til grundvallar sem stjórnarskrá fyrir Ísland. Þó hefur Alþingi ekki orðið við þessum vilja þjóðarinnar. Í nýju stjórnarskránni er kveðið á um að greiða skuli fullt verð fyrir hagnýtingu auðlinda þjóðarinnar, eða með öðrum orðum markaðsverð. Lögfesting þessarar reglu í stjórnarskrá er ætlað að koma í veg fyrir það að takmörkuð verðmæti sem þjóðin á séu afhent tilteknum einkaaðilum á undirverði með tilheyrandi ofurgróða þessara sömu aðila.
Við getum ekki endalaust litið fram hjá samhengi hlutanna. Það hlýtur að koma að því að við vöknum og krefjumst kerfislægra breytinga svo hægt sé að reka það velferðarkerfi sem yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar vill að hér sé til staðar. Við hljótum öll að sjá hag okkar í því að sameinast um það sem ætti að vera sjálfsagt: Að niðurstöður lýðræðislegra kosninga séu virtar, og að eðlilegur hluti arðs af auðlindum þjóðarinnar renni í ríkiskassann og sé varið í uppbyggingu á innviðunum sem við eigum öll saman.
Hér mætti varpa fram annarri merkingu á því fallega orði sem samviskan er, sem er sú staðreynd að við erum klárari sem heild en sem einstaklingar. Sam-viska er í raun grundvallarforsenda fyrir lýðræði. Hvað varðar nýju stjórnarskrána liggur þessi samviska þjóðarinnar skýrt fyrir.
Sú andfélagslega hegðun sem ég viðhafði sem barn, og játaði í byrjun þessa pistils, óx af mér. Í dag geng ég ekki um brennandi, stelandi né sólundandi eigum annarra. Smátt og smátt áttaði barnsheilinn minn sig á því að gjörðir mínar hefðu áhrif á heill og hamingju annarra.
Leikskólakennarinn sem ákvað að skrifa Gleðihorfurnar á tússtöflu gerði það vegna þess að hann áttar sig einmitt á sömu staðreynd. Hann var meðvitaður um að hann býr í samfélagi og getur haft áhrif á samferðafólk sitt. Hann valdi að nýta áhrifin til góðs. Í þessari einföldu gjörð felst heimspeki sem hver sem er getur tileinkað sér.
Við erum í þessu stappi sem lífið er saman, hvað sem hver segir. Megi því samkennd, samviska og hið stóra samhengi sigra á komandi ári ... með tilheyrandi áhrifum á gleðihorfur samfélagsins.
Athugasemdir