Hugur minn var á reiki um daginn og staðnæmdist á orðinu „sýndarvelgengni“. Hugtakið kemur fyrir í bók ísraelska sagnfræðingsins Yuval Noah Harari, Sapiens. Vísar það til þess hvað liggur raunverulega að baki velgengni þegar allar hliðar eru skoðaðar. Ekki er ávallt allt sem sýnist líkt og þegar íslensk stjórnvöld sögðu eftir hrun að skuldastaða heimilanna hefði batnað – og það væru góðar fréttir. Veruleikinn að baki þeirri tölfræðilegu fullyrðingu var að fjöldi fólks, sem að endingu missti heimili sín eftir hrun, var einfaldlega ekki lengur hluti af menginu. Sýndarvelgengni í hnotskurn.
„Hagræðing í sjávarútvegi“ með tilkomu kvótakerfisins er af sama toga. Opinbert markmið er að sporna gegn ofveiði og skila arði til þjóðarinnar. Samstaða um kerfið var nánast einhliða sköpuð í röðum þeirra valdamestu í greininni, þ.e. útgerðarmannanna sjálfra og stjórnmálamanna sem þeim tengjast. Að fengnu leyfi til að kaupa hver annan út úr greininni voru flestir ef ekki allir útgerðarmenn á grænni grein. Eftir sátu þeir og þær, sem höfðu haft trausta atvinnu af fiskveiðum og vinnslu, í kvótalausum þorpum um land allt atvinnulaus með fasteignir, sem snarféllu í verði. Í framhaldinu áttu sér stað nauðungarflutningar á mölina, fólk í atvinnuleit og leit að húsnæði til leigu eða kaups á himinháu verði. Enginn stuðningur var í boði stjórnmálamanna eða hins opinbera við hina valdalausu. Breytingar fela yfirleitt í sér fórnarkostnað. Hins vegar er spurning hvar hann fellur eða hvernig hann dreifist. Kostnaðurinn af kerfisbreytingunni sem kvótakerfið kallaði yfir okkur féll á hina valdaminni en ávinningurinn fór til hinna valdameiri.
Auðmenn og sérhagsmunahópar hafa stjórnmálamenn í vasanum víðs vegar um heim. Þeir sem hafa völdin passa hver upp á annan og standa þétt saman. Hvaða stétt og hópar hafa annars hag af aflandsreikningum, bankaleynd, ógagnsæju eignarhaldi og brellubókhaldi (e. creative accounting)?
„Auðmenn og sérhagsmunahópar hafa stjórnmálamenn í vasanum víðs vegar um heim“
Almenningur á Íslandi er nú farinn að mótmæla undir slagorðinu: Lýðræði ekki auðræði! Rannsóknir hafa sýnt að aðdragandi alvarlegra átaka og ófriðar hefst að jafnaði eftir tíu ára friðsamleg mótmæli almennings gegn óréttlæti ellegar misrétti sem það verður fyrir. Þjóðfélagsþegnar grípa ekki til ofbeldis fyrr en útséð er um að mótmæli skili árangri. Breskar konur sem börðust fyrir kosningarétti voru ákaflega þolinmóðar og það var ekki fyrr en eftir 50 ára friðsamlega baráttu sem þær tóku sig til og sprengdu upp rusladalla og brutu rúður í búðargluggum til að árétta kröfur sínar. Fengu þær þá loks kosningarétt. Með öðrum orðum eiga flest átök sér friðsamlegan aðdraganda. Rætt hefur verið að stríðið í Sýrlandi megi rekja til loftslagsbreytinga. Það mun, að vissu marki, vera rétt þar eð uppskerubrestur varð vegna þurrka sem skapaði óróa. Aðalatriði er þó að sumir bændur fengu bætur frá stjórnvöldum á meðan aðrir fengu minna eða alls ekki neitt – allt eftir því hvernig tenglsum þeirra við stjórnvöld var háttað. Ástandið leiddi til mótmæla sem breiddust hratt út og urðu á endanum að almennu andófi gegn spilltum stjórnarháttum og ranglæti stjórnvalda, þar með talið mannréttindabrotum. Stríð braust út eftir tilraunir stjórnvalda til að berja niður mótmæli með vopnavaldi. Af þessu má glöggt sjá að mesta ógn samtímans eru spilltir stjórnarhættir valdhafa og kerfi sem eru samofin sérhagsmunum í stað almannahagsmuna.
Dæmin um hinn falda veruleika á bak við sýndarvelgengni tengdu hugrenningar mínar við ritgerð sem ég setti saman um einungis eitt stakt orð þegar ég var ungur stjórnmálafræðinemi við Kaupmannahafnarháskóla á námssviði tungumála og orðræðu. Hugtakið sem um ræðir er enska orðið pacification sem samkvæmt þáverandi samheitaorðabókum var það atferli að endurreisa lög og reglu til að koma á friði. En hvað liggur að baki orðinu? Orðið pacification gat til að mynda falið í sér nauðungarflutninga og fangelsanir án dóms og laga eða annars konar brot á mannréttindum. Ritsmíð mín fjallaði um þetta efni með vísan í virta hugsuði, s.s. bandaríska málvísindamanninn Noam Chomsky og breska rithöfundinn George Orwell. Þá opnuðust augu mín fyrir því hversu huglæg tungumál eru, hvað þá kynjuð. Tungumálið endurspeglar, sem sagt, vanalega hugmyndir og hagmuni þeirrar forréttindastéttar sem valdið hefur til þess að skilgreina veruleikann fyrir hinum. Skilgreininga- og þekkingarsköpunarvaldið er þeirra.
Þetta voru fyrst og fremst karlar þar til konur sem þjóðfélagshópur fóru loks að láta til sín taka á opinberum vettvangi. Fram á áttunda áratuginn, sem dæmi, var ekkert orð eða hugtak til um þær athafnir sem heyra undir kynbundna eða kynferðislega áreitni. Hugtakið „kynferðisleg áreitni“ (e. sexual harassment) var fyrst notað opinberlega árið 1975 þegar bandaríska blaðakonan Lin Farley fjallaði um stöðu kvenna á vinnustöðum á opnum fundi hjá mannréttindanefnd New York-borgar. Vísaði Fin til athafna sem hún skýrði sem kynferðislega áreitni á vinnustöðum og lýsti sem faraldri. Máli sínu til stuðnings vísaði hún til könnunar sem hún gerði meðal kvenna við nám og störf á sínum eigin vinnustað, Cornell-háskóla, en hún kenndi þar um árabil. Af 155 kvensvarendum voru hvorki meira né minna en 70% sem höfðu orðið fyrir kynferðislegri áreitni og fannst 92% kvennanna áreitni vera alvarlegt vandamál sem taka þyrfti á. Hugtakið komst síðar í þá almennu notkun sem við þekkjum eftir að dagblaðið New York Times nýtti það sem nýyrði í frétt af opinberum fundi mannréttindanefndarinnar.
„Það var eins og ljós hefði verið kveikt í myrku herbergi“
Veruleiki kvennanna við Cornell-háskóla voru #metoo sögur þess tíma í veröld karla sem töldu sig eiga óskorað kynferðislegt tilkall til kvenna. Margir karlar slógu fyrirbærinu upp í grín um leið og þeir gerðu lítið úr konum sem og meintu húmorsleysi þeirra. Hinn hamlandi veruleiki kynferðislegrar áreitni var sem ósýnileg bakhlið hins sýnilega og „samþykkta“ veruleika þar til nýyrðið kom til sögunnar. Eins og Fin Farley orðaði það sjálf: Það var eins og ljós hefði verið kveikt í myrku herbergi.
Því miður hefur niðrandi tal um konur á kynferðislegum nótum og áreitni ekki verið upprætt eins og #metoo sögurnar og Klaustursmálið eru til vitnis um í landinu sem blessunarlega stendur þó hvað best á sviði kynjajafnréttis í alþjóðlegum samanburði.
Það er ósk mín fyrir árið 2020 að velgengni út frá víðu samfélagslegu sjónarhorni verði meginregla í stað þess að einblína á hina villandi sýndarvelgengni sem einkennir oftar en ekki samtímann.
Athugasemdir