Ég hafði aldrei heyrt orðið Triscornia fyrr en árið 2019. Langafi minn, Andreu Puigdueta, yfirgaf Barcelona í janúar 1906 og fór til Kúbu í leit að betra lífi. Hann ferðaðist á gufuskipi sem farþegi á þriðja klassa. Á leiðinni trúði hann dagbók fyrir ótta sínum og vonum, auk þess að lýsa lífinu um borð í skipinu. Þar sem textinn er skrifaður á gömlu katalónsku og með kvíðaþrunginni rithönd tók mig nokkrar vikur að þýða og skilja textann. Þegar herra Puigdueta nálgaðist lokaáfangastað, Havana, komst aðeins eitt að í huga hans: Triscornia. Hvað þýddi Triscornia? Skildi ég orðið rétt? Eftir að hafa leitað orðið uppi í dagblöðum þessa tíma skildi ég hvað Triscornia hafði verið. Skiljanlega óttuðust allir Spánverjar sem fóru til Kúbu þann stað. Triscornia var aflokað svæði þangað sem óvelkomnir innflytjendur (nokkurn veginn allir sem litu út fyrir að líða illa eða voru veikir) voru sendir. Þar biðu þeir eftir því að einhver réði þá í vinnu eða að verða reknir úr landi. Triscornia líktist fangelsi, þar sem innflytjendur voru neyddir til að vinna og borga fyrir vist sína, þar sem þeir sváfu margir saman í óheilsusamlegum vistarverum fullum af flóm. Í dagbókinni lýsir Puigdueta því að honum hafi tekist að forðast Triscornia, því hann var vel klæddur. 110 árum eftir að langafi minn flutti til Kúbu flaug ég frá Barcelona til Íslands, með lággjaldaflugfélagi með 800 evrur í vasanum, í leit að betra lífi. Vissulega er enginn staður á borð við Triscornia nú á dögum á Íslandi, en þar er samt sem áður síunarkerfi við lýði, sem hefur það hlutverk að skilja góða innflytjendur frá þeim slæmu. Evrópska vegabréfið mitt jafngildir fínu fötum langafa míns, á meðan þau sem koma til Íslands sem hælisleitendur, sem mörg hver hafa flúið skelfilegan veruleika, eru látin dvelja í gistiskýlum, haldið utan samfélagsins og oft og tíðum vísað úr landi á ómannsæmandi hátt. Triscornia var ekki bara staður, heldur gamla hugmyndin um að velja manneskjur eftir uppruna eða félagslegri stöðu. Því miður, árið 2020, fyrirfinnst Triscornia enn, hér á Íslandi sem og alls staðar í heiminum öllum.
Athugasemdir