„Aftakaveður“ gengur nú yfir landið allt. Rauð viðvörun hefur verið gefin út fyrir Norðausturland til viðbótar við Norðvesturland og Strandir.
Veðrinu er misskipt á höfuðborgarsvæðinu. Þannig mælist stinningskaldi eða 12 metrar á sekúndu á mæli Veðurstofunnar í Reykjavík, en ofsaveður á Seltjarnarnesi, eða 28 metrar á sekúndu. Þar mælist mesta hviða 37 metrar á sekúndu. Það jafngildir fárviðri, þar sem grjót getur fokið og kyrrstæðir bílar oltið, samkvæmt gömlu vindstigunum.
Sjór hefur gengið á land í Vesturbænum sem stendur við haf til norðurs. Þá hafa þakplötur fokið og rúður brotnað á Boðagranda.
Á höfuðborgarsvæðinu er búist við því að versta veðrið standi yfir frá 17 til 21 eða 22.
Gert var ráð fyrir 14 til 30 metrum á sekúndu í Reykjavík og að mikill munur yrði á vesturhluta höfuðborgarsvæðisins og úthverfum þess. 12 metrar á sekúndu telst stinningskaldi, samkvæmt gömlum vindstigunum, en 24-28 metrar á sekúndu rok og umfram það ofsaveður og loks fárviðri. Á Suðurnesi á Seltjarnarnesi mældist því ofsaveður klukkan 18.
Fáir eru á ferli í borginni.
Landsbjörg hefur farið í um 200 útköll um land allt í dag. Ofsaveður er víða á Norðvesturlandi og á Ströndum. Vindur hefur einnig náð 63 metrum á sekúndu við Skálafell í Mosfellsdal klukkan 18, samkvæmt óyfirförnum frumniðurstöðum, en Íslandsmetið í þriggja sekúndna vindhviðu er 74,5 metrar á sekúndu.
Veðurstofa Íslands hefur lýst yfir óvissustigi vegna hugsanlegrar snjóflóðahættu á Mið-Norðurlandi.
Ríkislögreglustjóri hefur ákveðið í samráði við lögreglustjórana á Vestfjörðum, Norðurlandi vestra og Norðurlandi eystra að hækka viðbúnaðarstig af óvissustigi yfir á hættustig almannavarna vegna óveðurs í samráði við Veðurstofu Íslands. Tekið var fram að veðrið væri ekki búið að ná hámarki en farið að hafa veruleg áhrif á samfélög þessara lögregluumdæma. Á Vestfjörðum er aðallega um að ræða Strandir í takt við rauða viðvörun Veðurstofunnar. Í tilkynningu almannavarna segir að búast megi við áframhaldandi óveðri og ófærð auk þess sem stórstreymt sé þessa daganna. Þá hefur ísing myndast á raflínum og valdið rafmagnsleysi.
Lesendur eru hvattir til að senda myndir og myndbönd á frett@stundin.is.
Athugasemdir