Aðventan hér í Aþenu er óneitanlega svolítið öðruvísi en maður á að venjast. Hér til dæmis er voðalega lítið um slabb, það alíslenska helvíti sem gerir sokka alsaklausra vegfarenda síblauta. Þá virðist sjaldan vera lægð yfir þessu landi. Það rignir vissulega töluvert en þess á milli er veðrið milt og gott. Allt að tuttugu gráður yfir miðjan daginn. Þá getur verið gott að sitja á svölunum og hlusta á Pálma Gunnarsson syngja um gleði og friðarjól á meðan maður baðar sig í D-vítamínbættu sólskini ...
Eða þar til maður finnur fyrir sviðanum fylla öll sín vit. Það gerist stuttu eftir að það heyrast nokkrir háværir hvellir. Það er táragas í loftinu og við hlaupum í skjól. Út um gluggann má sjá óeirðarlögreglumenn storma um göturnar með hjálma, kylfur, skildi og gasgrímur á hausnum. Á milli þessara herflokka niðurlútt fólk í járnum.
Andstæðurnar eru miklar hér í Exarchia í Aþenu. Síðastliðin ár hafa anarkistar og aðrir aðgerðarsinnar tekið yfir tómt húsnæði í hverfinu, komið á fót ýmsum verkefnum og meðal annars hýst hundruð flóttafólks. Nýja hægristjórnin sem tók við völdum síðastliðið sumar hefur hins vegar lýst yfir stríði við þessa hópa, sent fjölmennar lögreglusveitir á svæðið og tæmt hverja hústökuna á fætur annarri. Það á að hreinsa hverfið af allri óværu og byggja neðanjarðarlestarstöð við torgið.
En lífið gengur sinn vanagang þrátt fyrir átökin um hverfið og framtíð þess. Ávaxta- og grænmetissalarnir hrópa glaðbeittir til manns á laugardagsmarkaðnum, þeir Nikos og Christos veifa okkur á torginu, og á kaffihúsinu í næstu götu sketsar Notis gamli mynd sem hann færir okkur. Hann var prófarkalesari áður en kreppan skall á en býr nú í einni hústökunni og kvartar ekki yfir neinu nema bévítans rafmagnsleysinu!
Skammdegið er nefnilega líka komið hingað til Aþenu. Sólin sest nú um fimm leytið og myrkrið tekur yfir. Ég vona bara að Notis, Nikos, Christos og aðrir götunnar englar fái gleði og friðarjól.
Athugasemdir