Kjartan Þorkelsson, lögreglustjóri á Suðurlandi, verður skipaður ríkislögreglustjóri til bráðabirgða. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra tilkynnti um þetta á blaðamannafundi rétt í þessu og mun hún í framhaldinu skipa nýjan ríkislögreglustjóra í stað Haraldar Johannessen sem tilkynnti um afsögn sína í dag.
Áslaug Arna tilkynnti ekki um sameiningar embætta hjá lögreglunni á fundinum og hefur Kjartan tilkynnt að hann muni ekki sækjast eftir stöðunni til frambúðar, að því fram kemur í umfjöllun Mbl.is.
Samkvæmt lögum skipar dómsmálaráðherra ríkislögreglustjóra til fimm ára. Hann er æðsti yfirmaður lögreglunnar á Íslandi og fer með málefni hennar í umboði ráðherra. Skylda er að auglýsa embættið í Lögbirtingablaði, en ráðherra er þó heimilt að skipa eða setja mann í embætti tímabundið eða flytja annan embættismann í stöðuna. Þannig er heimilt samkvæmt lögum að gera annan embættismann sem ráðinn hefur verið ótímabundið að ríkislögreglustjóra án auglýsingar sé hann samþykkur því.
Ríkislögreglustjóri má hvorki hafa hlotið fangelsisdóm fyrir refsiverðan verknað sem framinn var að fullu eftir að aðilinn varð 18 ára né „sýnt af sér háttsemi sem getur rýrt það traust sem lögreglustjórar verða almennt að njóta“. Hann skal hafa fullnaðarpróf í lögfræði með embættis- eða meistaraprófi eða háskólaprófi í þeirri grein sem metið verður jafngilt.
Átta af níu lögreglustjórum landsins, auk formanns Landssambands lögreglumanna, lýstu vantrausti á Harald í haust. Miklar deilur hafa staðið yfir um störf Haraldar undanfarið. Umboðsmaður Alþingis gerði í vor athugun á ráðningarmálum embættisins. Þá taldi dómsmálaráðuneytið bréfasendingar Haraldar vegna umfjöllunar í bók rýra traust og trú á embætti ríkislögreglustjóra og að tilgangurinn hafi verið að vernda persónulega hagsmuni hans. Loks hafa eineltismál, samskipti við sérsveitina og deilur um lögreglubifreiðar verið til umfjöllunar síðasta ár. Áslaug Arna ákvað þó í haust að Haraldur mundi ekki láta af embætti.
Haraldur hefur verið ríkislögreglustjóri frá 1. febrúar 1998 þegar hann var skipaður af Þorsteini Pálssyni dómsmálaráðherra úr hópi átta umsækjenda. Hann lauk lagaprófi frá Háskóla Íslands 1983 og stundaði í kjölfarið framhaldsnám í afbrotafræði við Ríkisháskólann í Flórída. Hann var fangelsismálastjóri frá 1988 til 1997 og varalögreglustjóri frá 1997. Hann lætur af störfum um áramótin eftir rétt tæplega 22 ára starf.
Athugasemdir