Stúdentaráð Háskóla Íslands skorar á háskólaráð að endurnýja ekki samning við Útlendingastofnun um aldursgreiningar á fylgdarlausum hælisleitendum með tanngreiningum. Þetta kemur fram í áskorun sem Stúdentaráð sendi fyrir helgi.
Háskólaráð Háskóla Íslands samþykkti í vor að gera samkomulag við Útlendingastofnun um verksamning um klíníska munnholsskoðun og röntgenmyndatöku til eins árs. „Háskólinn á fyrst og fremst að vera menntastofnun og það er hvorki í samræmi við stefnu skólans né er til fyrirmyndar fyrir störf og stöðu HÍ í samfélaginu, að taka sér hlutverk með þessum hætti í ferli fylgdarlausra ungmenna sem hingað koma í leit að hæli. Sem æðsta opinbera menntastofnun landsins ber HÍ að vernda og styðja ungmenni í leit að öruggara lífi,“ segir í áskoruninni sem Jóna Þórey Pétursdóttir, forseti Stúdentaráðs, undirritar.
„Sem æðsta opinbera menntastofnun landsins ber HÍ að vernda og styðja ungmenni í leit að öruggara lífi“
Rauði krossinn á Íslandi hefur ítrekað gagnrýnt þá aðferðafræði sem íslensk útlendingayfirvöld beita við aldursgreiningu. Tanngreiningar á hælisleitendum eru umdeildar, enda eru tannlæknar ósammála um áreiðanleika og vísindalegt gildi slíkra rannsókna. Tannlæknasamtök Bretlands hafa sagt þær „óviðeigandi og ósiðlegar“, þær geti aldrei gefið nákvæmar upplýsingar um aldur og að óverjandi sé að láta ungmenni í viðkvæmri stöðu gangast undir röntgenrannsóknir án þess að læknisfræðileg nauðsyn krefjist þess. Bent hefur verið á að tannþroski fólks virðist frábrugðinn eftir því af hvaða stofni það er og við hvaða aðstæður það elst upp.
Heimilt verður að endurskoða samkomulagið um tanngreiningarnar á næstunni. „Nú nálgast sá tími endurskoðunar og telur Stúdentaráð rétt að ítreka afstöðu sína, sem hefur hlotið stuðning Landssamtaka íslenskra stúdenta, European Student’s Union ásamt fulltrúum starfsfólks og nýdoktora við Háskóla Íslands á Menntavísindasviði, Hugvísindasviði og Félagsvísindasviði samkvæmt undirskriftalistum,“ segir í áskorun Stúdentaráðs.
Athugasemdir