Vefurinn mbl.is birtir fréttir þrátt fyrir verkfall Blaðamannafélags Íslands sem stendur yfir til klukkan 22 í kvöld. Hefur á þriðja tug frétta birst á vefnum frá því verkfallið hófst kl. 10. Hið sama hefur verið uppi á teningnum í fyrri verkföllum. Blaðamannafélag Íslands hefur stenftn Árvakri, útgáfufélagi mbl.is, fyrir félagsdóm vegna þessa.
Mbl.is birti tilkynningu á vef sínum vegna málsins. „Þetta er þriðja verkfallið af þessi tagi sem boðað hefur verið til og eins og áður verður fréttaþjónusta á mbl.is í allan dag, en fréttirnar skrifa á fyrrnefndu tímabili þeir sem ekki eru félagar í Blaðamannafélagi Íslands,“ segir í tilkynningunni. „Mbl.is sinnir afar þýðingarmiklu hlutverki sem fréttamiðill en gegnir um leið mikilvægu öryggishlutverki. Af þessum sökum er allt kapp lagt á að vefurinn loki aldrei, jafnvel þó að úr fréttaflæði kunni að draga í langvarandi verkfalli.“
Á meðal fyrirsagna fréttanna sem hafa verið birtar eru „Spá 10 stiga hita í Reykjavík“, „Leyndardómar uppþvottavélatöflunnar“ og „Inga Lind og Árni saman á ný“.
Fimmtán starfsmönnum Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins, mbl.is og K100, var sagt upp í gær. Ritstjóri Morgunblaðsins og viðskiptaritstjóri þess hafa tengt uppsagnirnar við verkföll netblaðamanna, þrátt fyrir að útgáfufélagið hafi verið rekið með 415 milljón króna tapi í fyrra og 284 milljón króna tapi árið 2017.
Vinnustöðvun vefblaðamanna, ljósmyndara og tökumanna mun standa yfir í 12 klukkutíma í dag, frá kl 10 til 22. Nær vinnustöðvunin til Morgunblaðsins, Fréttablaðsins, Sýnar og RÚV að hluta. Hefur Blaðamannafélag Íslands áréttað að ekkert skuli birt á vef á þessum tíma. Stundin og fleiri miðlar hafa þegar náð samningi við Blaðamannafélagið.
Athugasemdir