Skemmtiferðaskip eru ábyrg fyrir um þriðjungi losunar gróðurhúsalofttegunda allra skipa sem fara um Faxaflóahafnir. Útblástur þeirra nemur um 60 prósent af því sem innanlandsflug á Íslandi losar á hverju ári.
Þetta kemur fram í svari Faxaflóahafna við fyrirspurn Vigdísar Hauksdóttur, borgarfulltrúa Miðflokksins. Áætlað er að um 194 skemmtiferðaskip komi til Reykjavíkur í ár og með þeim 183 þúsund farþegar. Er búist við aukningu farþega á næsta ári.
Faxaflóahafnir hafa frá árinu 2016 látið vinna útstreymisbókhald vegna skipa sem koma til hafnar á hafnarsvæðum fyrirtækisins. Reiknað er út hver útblástur skipanna er í siglingu til og frá höfn og í viðlegu. Í bókhaldinu kemur fram að losun skemmtiferðaskipa hafi verið um 14.300 tonn á síðasta ári. Hefur losunin aukist um 50 prósent frá árinu 2016. Til samanburðar er losun allra fiskiskipa við hafnir Faxaflóa aðeins 10.200 tonn og losun alls innanlandsflugs á Íslandi mældist 23.000 tonn árið 2017.
Athugasemdir