Annað verkfall blaðamanna í Blaðamannafélagi Íslands hófst klukkan 10:00 í morgun og mun það standa til klukkan 18:00 í dag. Engu að síður hafa fjöldamargar fréttir birst á vef Morgunblaðsins, Mbl.is, eftir að verkfallið hófst, sem brýtur í bága við túlkun og viðmið Blaðamannfélagsins á framkvæmd verkfallsins. Fréttastjóri viðskipta á Morgunblaðinu segir að formaður Blaðamannafélagsins stýri ekki hans vinnu og að fréttir sem hann hefur skrifað muni birtast á meðan að á verkfallinu stendur.
Fyrsta verkstöðvun Blaðamannfélagsins í kjaradeilum þess við Samtök atvinnulífsins fór fram síðastliðinn föstudag og stóð þá í fjóra tíma. Á þeim tíma birtist á þriðja tug frétta á mbl.is og túlkar Blaðamannafélagið það sem verkfallsbrot og hefur stefnt Árvakri, útgáfufélagi Morgunblaðsins, fyrir Félagsdóm vegna verkfallsbrota.
Ber ábyrgð á birtingu frétta í verkfalli
Í dómkröfum Blaðamannafélagsins er þess krafist að viðurkennt verði að Árvakur hafi brotið lög um stéttarfélög og vinnudeilur með því að hafa falið níu manns að sinna störfum á mbl.is á meðan að á verkfallinu stóð. Meðal þeirra sem taldir eru upp í stefnunni eru Stefán Einar Stefánsson, fréttastjóri viðskiptafrétta, sem höfundur fréttar með fyrirsögninni „Hægir á eignaaukningunni“, sem birtist klukkan 11:00, klukkutíma eftir að verkfall hófst.
Stefán Einar er siðfræðingur og fyrrverandi formaður VR stéttarfélags.
„Ég skrifaði þessa frétt og þú getur bara flett upp á því sjálfur á mbl.is að hún birtist á þessum tíma,“ segir Stefán Einar í samtali við Stundina. Spurður hvort hann hafi birt hana á umræddum tíma segir Stefán Einar að hann beri jú ábyrgð á því að fréttin hafi birst á meðan að á vinnustöðvun stóð.
„Hjálmar Jónsson er bara enginn verkstjóri yfir mér eða öðru starfsfólki hér“
Morgunblaðið hefur sem fyrr segir birt fjölda frétta í dag síðan verkfall hófst klukkan 10:00. Spurður hvort hann hafi skrifað einhverjar þær frétta segist Stefán Einar ekki hafa yfirlit yfir það. „Ég geri ráð fyrir því að í dag muni birtast fréttir sem að ég hef skrifað, í gær og í morgun áður en verkstöðvun hófst.“
Hafnar verkfallsbrotum á Morgunblaðinu
Þegar Stefáni Einari er bent á að það sé túlkun Blaðamannafélagsins að ekki sé heimilt að tímastilla fréttir til birtingar á meðan að á verkstöðvun standi svarar hann: „Hjálmar Jónsson [formaður Blaðamannafélagsins] er bara enginn verkstjóri yfir mér eða öðru starfsfólki hér.“ Stefán segir að hann líti ekki svo á að hann sé með því að tímastilla fréttir til birtingar á meðan að á verkfallinu standi sé hann að gerast verkfallsbrjótur. „Mér dytti að sjálfsögðu aldrei í hug að brjóta verkfallslög, þó að Hjálmar Jónsson haldi öðru fram. Ég hef einfaldlega fylgt þeim viðmiðum sem að hafa verið gefin út af Samtökum atvinnulífsins um það hvernig að þessu skuli staðið, og er það byggt á dómafordæmum Félagsdóms. Þannig að það er alveg á hreinu af minni hálfu að öll þau skrif sem ég hef komið að á föstudaginn fyrir viku, og einnig í dag, séu vel innan þeirra marka og ég myndi ekki taka þátt í að gera eitthvað sem teldist verkfallsbrot.“
Spurður hvort hann viti til þess að verið sé að brjóta verkfallslög hjá Morgunblaðinu neitar Stefán Einar því og segir að ef svo væri þá kæmi það sér verulega á óvart. „Ég held að það sé alveg útilokað að mönnum dytti það í hug.“ Þegar bent er á meðal þeirra frétta sem birst hafa á vef Morgunblaðsins eftir að verkstöðvun hófst sé meðal annars frétt byggð á tilkynningu Síldarvinnslunnar, sem birt var eftir að verkfall blaðamanna hófst, og Stefán Einar spurður hvort það sé þá ekki verkfallsbrot bendir Stefán Einar á að bæði hafi ritstjórar heimild til að skrifa fréttir á meðan að á verkfallinu standi og eins séu starfandi blaðamenn á mbl.is sem ekki séu félagar í Blaðamannafélaginu. Hann gangi út frá því að einhver úr þeim hópi hafi skrifað umrædda frétt, sem ekki er merkt neinum ákveðnum blaðamanni. „Ég er búinn að segja þér að ég lít svo á að hér séu engin verkfallsbrot framin. Þessi frétt skrifar sig ekki sjálf.“
Athugasemdir