Þyrí Steingrímsdóttir, hæstaréttarlögmaður og ritstjóri Lögmannablaðsins, gagnrýnir nefnd um dómarastörf og eftirlitskerfi stjórnsýslunnar með dómstólum harðlega í grein sem birtist í blaðinu sem kom út í vikunni.
Nefndin hefur komið við sögu í umfjöllun fjölmiðla um fjármál hæstaréttardómara undanfarnar vikur en Markús Sigurbjörnsson, forseti Hæstaréttar, var ranglega sakaður um að hafa vanrækt tilkynningarskyldu um fjárhagsmálefni sín. Sá misskilningur byggði á því að nefnd um dómarastörf fann ekki bréf sem Markús hafði sent nefndinni. Þrátt fyrir þessa misbresti gaf nefnd um dómarastörf út sérstaka yfirlýsingu þar sem því var hafnað að skráningu mála hjá nefndinni væri ábótavant.
Þyrí bendir á það í grein sinni að umrædd nefnd hefur heimildir til að taka afar íþyngjandi ákvarðanir um störf dómara, setu þeirra í embætti og einnig um æru þeirra. Þá segist Þyrí hafa leitað upplýsinga um málsmeðferðarreglur nefndarinnar án árangurs.
„Sú sem þetta ritar hefur enga vitneskju um hvaða reglur gilda um málsmeðferð hjá nefndinni, þrátt fyrir að hafa reynt að leita upplýsinga um það. Ekki liggur fyrir hvort þær reglur eru yfirhöfuð til eða hvar þær eru birtar ef svo er. Þá virðist engin leið að vita hvort og þá hvaða kvartanir hafi borist nefndinni, hvað hafi átt sér stað á fundum hennar, um hvað álit hennar hafi fjallað o.s.frv,“ skrifar hún og bætir því við að svo virðist sem skráningu og vörslu gagna sé verulega ábótavant. „Kannski eru þessar reglur til staðar, kannski ekki. Kannski eru gögn til staðar, kannski ekki.“
Þá skrifar hún: „Ef málefni og starfshættir nefndar um dómarastörf sem borin hafa verið á borð fyrir okkur að undanförnu eru ekki einsdæmi þá hlýtur sú spurning að vakna hvort eftirlitskerfi stjórnsýslunnar með dómstólum sé boðlegt. Svarið við því er augljóslega nei. Þetta er ekki boðlegt og allra síst gagnvart dómurum sem í flestum ef ekki öllum tilvikum er fólk sem vant er að virðingu sinni, gætir að hæfi sínu, hefur góða dómgreind og leggur sig fram um að hlíta lögum og reglum, hvort sem það eru almennar reglur fyrir alla í samfélaginu eða reglur sem gilda um þá sérstaklega.“
Athugasemdir