Eyjan, vefrit sem gefið er út af Birni Inga Hrafnssyni, heldur því fram í dálknum Orðið á götunni að Vilhjálmur Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hafi beitt sér í þágu erlendra kröfuhafa og talað máli þeirra í samskiptum sínum við íslenska embættismenn. Auk þess hafi hann boðið fulltrúum kröfuhafa og bandarískra stjórnvalda til fundar að heimili sínu í Garðabæ og gortað af framtaki sínu.
„Ég svara ekki slúðri, þú verður bara að tala við Eyjuna,“ segir Vilhjálmur í samtali við Stundina. Aðspurður um sannleiksgildi þess sem fram kemur í greininni svarar hann: „Ég kannast ekki við þetta,“ og kveður.
Greinin á Eyjunni birtist í kjölfar þess að Vilhjálmur lét Framsóknarflokkinn fá það óþvegið í aðsendri grein í Morgunblaðinu. Kallaði hann flokkinn „smáflokk með mikilmennskubrjálæði“ og furðaði sig á því að Sjálfstæðisflokkurinn léti það yfir sig ganga „að lyfta formanni Framsóknarflokksins í stól forsætisráðherra“.
Örfáum vikum áður hafði Vilhjálmur hins vegar lýst trausti á ríkisstjórn undir forystu Framsóknarflokksins þegar hann greiddi atkvæði gegn vantrauststillögunni sem stjórnarandstaðan lagði fram gegn ríkisstjórn Sigurðar Inga Jóhannssonar.
Athugasemdir