Nítján ára piltur varð skyndilega skráður eigandi næst stærstu lyfjaverslunarkeðju landsins og umsvifamikils fasteignafélags eftir að faðir hans var dæmdur til að greiða milljarða króna í skaðabætur vegna efnahagsbrota.
Pilturinn, sem var nemandi í Verslunarskóla Íslands, skellti á fréttamann RÚV sem gerði tilraun til að spyrja hann út í viðskipti þeirra feðga í símtali.
Jón Hilmar Karlsson er nú 21 árs gamall. Hann er sonur Karls Wernerssonar, eins umsvifamesta fjárfestis Íslands fyrir hrun, sem kenndur var við Milestone og átti stóran hlut í Sjóvá og Glitni. Karl var dæmdur í Hæstarétti í þriggja og hálfs árs fangelsi fyrir efnahagsbrot og var nú í mars dæmdur til að greiða þrotabúi Milestone um tíu milljarða króna ásamt bróður sínum og forstjóra félagsins.
Fékk að leiðrétta skráningu eftir dóm
Viðskipti Karls og sonar hans áttu sér stað eftir að Karl var dæmdur til greiðslu skaðabóta vegna þess að hann og bróðir hans létu Milestone greiða fyrir hlutabréf Ingunnar, systur hans, í félaginu. Eignarhald systkinanna á Milestone var meðal annars í gegnum aflandsfélög. Samkvæmt mati dómstóla var samningur um kaup á hlutabréfum á milli bræðranna og Ingunnar Wernersdóttur, en ekki Ingunnar og Milestone, og voru bræðurnir því metnir bótaskyldir gagnvart þrotabúi Milestone.
Með viðskiptunum við son sinn hefur Karl mögulega náð að fyrirbyggja að gengið verði að Lyfjum og heilsu vegna skaðabótadómsins.
Karl lét senda inn leiðréttan ársreikning til ársreikningaskrár Ríkisskattstjóra daginn eftir að hann var dæmdur til greiðslu skaðabótanna í apríl í fyrra, fimm mánuðum eftir að ársreikningnum var skilað inn. Í leiðréttum ársreikningi kom fram að sonur hans væri orðinn eigandi þegar í árslok árið 2014. Jón Hilmar varð nítján ára árið 2014.
Ein af eignum Milestone var Lyf og heilsa, en svo vildi til að Milestone hafði selt félagi Karls Wernerssonar lyfjaverslunarkeðjuna skömmu fyrir hrun, sem skiptastjóri Milestone taldi að snerist um að forða Lyfjum og heilsu frá kröfuhöfum.
Stóran hluta síðasta árs var Jón Hilmar, þá nýr eigandi Lyfja og heilsu samkvæmt leiðréttum pappírum, í heimsreisu í Afríku, Asíu og Suður-Ameríku.
Lyf og heilsa rekur á þriðja tug lyfjaverslana um land allt undir nöfnum Lyfja og heilsu, Apótekarans og Gamla apóteksins.
Blaðamaður Viðskiptablaðsins í varastjórn
Þann 6. desember síðastliðinn var síðan send tilkynning til Ríkisskattstjóra um að Jón Hilmar hefði verið kosinn í stjórn Toska ehf, sem á Lyf og heilsu.
Vinur, jafnaldri og skólafélagi Jóns Hilmars úr Verslunarskólanum, Hörður Guðmundsson, var skráður varamaður í stjórn Toska ehf. á sama tíma. Hörður er blaðamaður á Viðskiptablaðinu og stjórnarmaður í Heimdalli, félagi ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, en hann bauð sig fram til formennsku í Heimdalli seint á árinu 2015.
Athugasemdir