Þann 14. júlí síðastliðinn lögðu starfsmenn Íslenskra aðalverktaka (ÍAV) niður störf við byggingu kísilvers United Silicon í Helguvík. Sigurður R. Ragnarsson, forstjóri ÍAV, segir það vegna ógreiddra skulda sem slaga hátt í milljarð króna. Magnús Garðarsson, einn af eigendum verkefnisins og helsti talsmaður þess, sagði félagið hins vegar ekki skulda ÍAV neitt. Þessar deilur hafa orðið til þess að nú neita forsvarsmenn United Silicon að afhenda ÍAV ýmsan búnað sem þeir telja sig eiga á svæðinu.
Gerðardómur hefur verið kallaður til og mun hann taka til starfa á allra næstu dögum. Gerðardómurinn er samsettur af þremur fulltrúum. Einn fulltrúi kemur frá United Silicon, einn frá ÍAV og síðan einn oddamaður sem var skipaður á dögunum.
Stendur ekki í handalögmálum
„Við ætlum ekki að standa í handalögmálum við þessa menn. Þetta verður væntanlega bara hluti af þessu dómsmáli sem nú fer af stað innan tíðar,“ segir Sigurður þegar hann er spurður um þennan búnað sem ÍAV fær ekki afhentan. Um er að ræða meðal annars rafmagnstöflur og annað vinnubúnað sem notaður var við byggingu kísilversins.
Blaðamaður Stundarinnar heimsótti vinnusvæðið við kísilver United Silicon á dögunum og er nú komin öryggisgæsla á svæðið. Samkvæmt samtölum blaðamanns Stundarinnar við verkamenn á svæðinu er öryggisgæslan á vegum kísilversins og er fylgst grannt með öllum þeim sem fara inn og út af vinnusvæðinu.
Nýtt tölublað Stundarinnar kemur út á morgun, fimmtudaginn 11. ágúst, en þar verður meðal annars fjallað um kísilver United Silicon og þær skýrslur sem lagðar voru til grundvallar þegar sótt var um leyfi fyrir byggingu þess og starfsleyfi.
Athugasemdir