Fjölmennt lið lögreglu, slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna er nú við störf í Hlíðarhjalla í Kópavogi. Þar virðist umfangsmikil lögregluaðgerð í gangi en íbúi í hverfinu segist ekki skilja viðbúnaðinn þar sem að ekki hafi verið lokað götum í hverfinu. Viðbragðsaðilar hafi verið á staðnum núna í tuttugu mínútur og engin hreyfing virðist á fjölmennu liði lögreglu-, slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna.
„Lögreglan kom fyrst en þeir voru að minnsta kosti á þremur lögreglubifreiðum. Á eftir það koma slökkvilið höfuðborgarsvæðisins en þeir eru hér á að minnsta kosti fjórum stórum slökkvibílum. Síðan eru, og núna er ég að horfa út um gluggann hjá mér, að minnsta kosti fjórir sjúkrabílar. Ég veit ekkert hvað þeir eru að gera. Það hefur engin hreyfing verið á þeim frá því þeir mættu. Til að byrja með hlupu lögreglumennirnir hérna um hverfið eins og þeir væru að skanna svæðið en síðan þá hefur lítið gerst, segir íbúi í hverfinu sem hafði samband við Stundina og sendi meðfylgjandi mynd.“
Fréttin verður uppfærð.
10:21 - Stundin hafði samband við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu sem varðist alla fregna af málinu. Fjarskiptamiðstöð lögreglunnar var ekki heimilt að gefa neinar upplýsingar um málið.
10:27 - Samkvæmt upplýsingum sem Stundin fékk með öðrum leiðum var tilkynnt um eld í íbúð við Hlíðarhjalla í Kópavogi. Þegar slökkvilið kom á vettvang voru íbúar komnir út en reykkafarar voru sendir inn í húsnæðið. Greiðlega gekk að slökkva eldinn en mikið tjón varð á íbúðinni. Nú hefur viðbragsaðilum fækkað á svæðinu og hafa aðrir íbúar í húsinu fengið að snúa aftur til síns heima.
Athugasemdir