Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi formaður og varaformaður Sjálfstæðisflokksins tilkynntu Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra í dag að þau hygðust ganga til liðs við Viðreisn. Í viðtali við Stöð 2 vildi hvorugt þeirra gagnrýna Sjálfstæðisflokkinn til útskýringar á brotthvarfi sínu úr flokknum.
Bjarni Benediktsson segir að Þorgerður Katrín hafi haft orð á framboði fyrir Sjálfstæðisflokkinn við sig fyrir aðeins nokkrum dögum. Nú hefur hún hins vegar farið fram á að taka forystusætið í Suðvesturkjördæmi hjá Viðreisn, í sama kjördæmi og Bjarni leiðir lista Sjálfstæðisflokksins.
„Ég ber ómælda virðingu fyrir honum. Hann hefur verið góður fjármálaráðherra og staðið sig vel svona í meginatriðum,“ sagði Þorgerður um Bjarna í viðtali við þau Þorstein í kvöldfréttum Stöðvar 2.
Þorsteinn vildi ekki taka afstöðu til þess hvort Sjálfstæðisflokkurinn væri orðinn of íhaldssamur né hvort flokkurinn beitti sér ekki nægilega fyrir viðskiptafrelsi og frjálsræði. „Ég er í sjálfu sér ekki að taka afstöðu til þess,“ sagði Þorsteinn aðspurður um þetta.
Að sama skapi vildi Þorgerður Katrín ekki svara spurningum fréttamanns um hvað hefði orðið til þess að þau sögðu skilið við Sjálfstæðisflokkinn. Þau svöruðu nær öllum spurningum með því að tala á jákvæðum nótum um Viðreisn og þær breytingar sem flokkurinn boðar.
„Meiri ást og kærleikur“
„Ég er að reyna að horfa á það þannig, hvað er það sem Viðreisn undirstrikar í sínum málflutningi og það eru þær áherslur sem við Þorsteinn höfum skoðað mjög vel og viljum styðja og yfirskriftin yfir það allt er meira frjálslyndi, meiri ást og kærleikur,“ sagði Þorgerður.
Þegar fréttamaður spurði hvort Sjálfstæðisflokkurinn gæti ekki sinnt þessu hlutverki sagði Þorgerður: „Þú getur ekki fengið alla vega mig, og ég veit ekki Þorstein, til að tala illa um Sjálfstæðisflokkinn, það er ekki tilgangurinn með þessu. Við erum að segja að Viðreisn er ákveðið afl sem ætlar að halda áfram og ýta undir þessi frjálslyndu gildi sem við viljum styðja, en þetta snýst ekki um Sjálfstæðisflokkinn, þetta snýst um Viðreisn.“
Síðar í viðtalinu sagði svo Þorgerður: „Eins og ég segi, þú færð mig ekki til að tala eitthvað sérstaklega um Sjálfstæðisflokkinn. Hann hefur magnaða sögu, hann er með ákveðna stefnu, með fullt af góðu fólki og ég óska því velfarnaðar, en við erum að stíga annað skref.“
„Mér er mjög hlýtt til Bjarna“
Þá var hún spurð hvernig henni litist á að etja kappi við Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, í Suðvesturkjördæmi. „Mér er mjög hlýtt til Bjarna og það breytist ekki,“ svaraði hún og sagði jafnframt að það væri fleira sem sameini þau Bjarna heldur en sundri. Þorgerður er að eigin sögn enn skráð í Sjálfstæðisflokkinn.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagðist í dag undrast framboð Þorgerðar Katrínar, þar sem hún hafi aðeins fyrir nokkrum dögum rætt mögulegt framboð sitt til Alþingis fyrir Sjálfstæðisflokkinn. „Þetta er dálítið skrítin staða til að vera í þegar það eru nokkrir dagar síðan hún var að ræða það við mig að fara fram fyrir okkar flokk,“ sagði í samtali við Stöð 2.
Ekki náðist í Þorgerði Katrínu við vinnslu fréttarinnar.
Athugasemdir