Fjórar stúdentahreyfingar skora á þingmenn að afgreiða hið umdeilda LÍN-frumvarp Illuga Gunnarssonar, mennta- og menningarmálaráðherra, strax á þessu þingi. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem formenn Stúdentaráðs Háskóla Íslands (SHÍ), Félags stúdenta við Háskólann á Akureyri (FSHA), Stúdentafélags Háskólans í Reykjavík (SFHR) og Nemendasambands Tækniskólans (NST) sendu fjölmiðlum í gærkvöldi.
Þinginu lýkur í dag samkvæmt starfsáætlun þess og er frumvarp menntamálaráðherra til laga um námslán og námsstyrki ekki á dagskránni. Frumvarpið á bæði eftir að fara í gegnum aðra og þriðju umræðu en fjöldi samtaka og fagaðila hafa gagnrýnt efnisatriði frumvarpsins harðlega.
Í nefndaráliti og frávísunartillögu minnihluta allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis kemur fram að LÍN-frumvarpið hygli hinum efnameiri á kostnað hinna efnaminni. Þá er fullyrt að frumvarpið stuðli að ójöfnuði og lægra menntunarstigi í landinu með því að takmarka möguleika fólks til að afla sér yfirgripsmikillar menntunar. Bent er á að hjá miklum meirihluta þeirra námsmanna sem fullnýta lánsrétt sinn muni afborgunarbyrði af námslánum aukast ef frumvarpið verður að lögum.
Vilja að stjórnarandstaðan leggi
„kosningaslaginn til hliðar“
Frumvarp Illuga var afgreitt út úr allsherjar- og menntamálanefnd á mánudag með breytingartillögu frá meirihluta nefndarinnar, meðal annars þess efnis að námsmenn geti sótt um mánaðarlega fyrirframgreiðslu námsaðstoðar fyrir allt að 22 ECTS einingum á hverju misseri og að vextir verði breytilegir en að hámarki 2,5% að viðbættu 0,5% álagi. Þá er lagt til að námsmenn sem hafa fullnýtt réttinn til námsaðstoðar samkvæmt frumvarpinu geti sótt um undanþágu til LÍN fyrir allt að 60 ECTS einingum til viðbótar. Þannig er brugðist við hluta af þeirri gagnrýni sem frumvarpið hefur sætt.
Formenn stúdentahreyfinganna eru jákvæðir gagnvart breytingartillögunum og vilja að málið verði klárað á þessu þingi. Jafnframt skora þeir á þingmenn stjórnarandstöðunnar að „leggja kosningaslaginn til hliðar“. Þannig er gefið í skyn að andstaða þingmanna við frumvarp Illuga Gunnarssonar stafi ekki af efnisatriðum frumvarpsins eða hugmyndafræðilegum ágreiningi heldur sé liður í vinsældakeppni stjórnmálaflokka í aðdraganda þingkosninga.
„Að þessu sögðu skorum við á stjórnarandstöðuna að leggja kosningaslaginn til hliðar og hlusta á stúdenta“
„Að þessu sögðu skorum við á stjórnarandstöðuna að leggja kosningaslaginn til hliðar og hlusta á stúdenta, sem eru langþreyttir á því að vera notaðir í pólitískum leikjum á milli stjórnmálaflokka. Við krefjumst þess að málið fari á dagskrá og verði tekið fyrir í 2. umræðu sem allra fyrst,“ segir í yfirlýsingunni. „Stúdentar munu ekki una því að bíða til næsta kjörtímabils eftir endurbótum á námsaðstoðarkerfinu. Ekki er hægt að horfa fram hjá því að þetta frumvarp er risastórt skref í átt að því námsaðstoðarkerfi sem við viljum sjá á Íslandi í framtíðinni, en það hefur í för með sér þau atriði sem stúdentar hafa lengi barist fyrir, til að mynda fyrirframgreiðslur, beina námsstyrki og 100% framfærslu.“
Nefndarálit og frávísunartillaga minnihluta allsherjar- og menntamálanefndar, sem birtist á vef Alþingis í gær, gefur nokkuð heildstæða mynd af því hvers vegna stjórnarandstaðan er mótfallin frumvarpinu. Þingmennirnir Guðmundur Steingrímsson, Ásta Guðrún Helgadóttir, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir og Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir standa að nefndarálitinu en flest af þeim umkvörtunarefnum sem þar er að finna hafa einnig komið fram í umsögnum aðila á borð við Háskóla Íslands, Bandalag háskólamanna, Alþýðusamband Íslands og Samtök námsmanna erlendis.
Þreföldun vaxta og „námsstyrkur óháð þörf“
Í fyrsta lagi er fullyrt að frumvarpið stuðli að ójöfnuði. Þetta er rökstutt með eftirfarandi hætti:
Frumvarpið er því marki brennt að það hyglir efnameira fólki en gerir efnaminna fólki erfiðara fyrir að fara í nám. Stærsta breytingin á núverandi námslánakerfi, verði frumvarp þetta að lögum, fælist í því að vaxtaprósenta námslána mundi allt að þrefaldast en á móti byðist öllum námsmönnum námsstyrkur. Hafa ber í huga að stór hluti námsmanna þarf ekki á námslánum að halda, hefur annaðhvort efnasterka bakhjarla eða hefur af öðrum orsökum nóg milli handanna. Verði frumvarpið að lögum mun þessi hluti námsmanna hljóta námsstyrk óháð þörf. Fyrir þann hluta námsmanna sem býr við bágari kjör og þarf, t.d. vegna félagslegra aðstæðna, að reiða sig á námslán til framfærslu mundi námsstyrkurinn hins vegar duga skammt. Þessi hluti nemenda mundi eftir sem áður þurfa að taka há námslán en greiða af þeim þrefalda vexti miðað við núverandi kerfi. Með öðrum orðum mundi hærri vaxtaprósenta lána, samhliða námsstyrkjum til allra, valda því að efnaminni einstaklingar, sem þurfa að taka lán, mundu í reynd greiða fyrir styrki til efnameiri einstaklinga sem komast af án lána. Slíkt kerfi stuðlar að auknum ójöfnuði. Minni hlutinn styður þá hugmynd að hluti námsaðstoðar sé veittur í formi styrkja en þykir illa rökstutt hvers vegna þeir sem hingað til hafa ekki þurft að taka námslán eigi að njóta námsstyrkja. Nær væri að öllum stæðu hagstæð námslán til boða en styrkirnir færu til jöfnunar félagslegrar stöðu og/eða til umbunar fyrir góðan námsárangur.
Annað dæmi um það hvernig frumvarpið hyglir efnameiri nemendum er að verulegar takmarkanir eru samkvæmt frumvarpinu settar á lán til greiðslu skólagjalda. Eðli málsins samkvæmt koma takmarkanirnar verr niður á þeim sem hafa minna milli handanna og gera þar með efnaminna fólki erfiðara fyrir að stunda nám. Hérlendis þurfa nemendur að greiða skólagjöld í ýmiss konar námi, t.d. listnámi. Sérstaða þess náms sem fer fram í Listaháskólanum er mikil og það gefur auga leið að meiri áhætta er fólgin í því að velja sér listnám þar sem tekjumöguleikar að námi loknu teljast ekki vera öruggir miðað við aðrar námsleiðir sem háskólar landsins bjóða. Minni hlutinn tekur undir áhyggjur Listháskóla Íslands um framtíð listnáms hér á landi verði frumvarp þetta að lögum þar sem greiðslubyrði af námslánunum yrði umtalsvert þyngri en verið hefur.
Telja að greiðslubyrði flestra nemenda þyngist
Þingmennirnir hafa einnig áhyggjur af aukinni greiðslubyrði námslána. Þeir benda á að í þeim útreikningum sem liggja til grundvallar frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir að lánþegar fullnýti lántökuheimildir sínar heldur haldi sig innan framfærsluviðmiða LÍN.
„Þannig eru bætur dregnar frá framfærsluviðmiðinu til þess að finna út hversu mikil útlánaþörf LÍN yrði í nýju kerfi og þar af eru 65 þús. kr. í nýja kerfinu styrkur. Þetta skekkir myndina af því hvernig afborgunarbyrði lánanna yrði í samanburði við núverandi kerfi,“ segir í áliti minnihlutans sem bendir á að samkvæmt útreikningunum sé gert ráð fyrir að einstætt tveggja barna foreldri sætti sig við 200 þúsund krónum minna ráðstöfunarfé á mánuði í nýja kerfinu heldur en áður. „Sé foreldri hins vegar ekki reiðubúið að taka á sig slíka kjaraskerðingu mun það þurfa að standa undir umtalsvert hærri afborgunum af námslánum samkvæmt nýja kerfinu en því gamla. Barnlausir einstæðingar í góðri félagslegri stöðu sem útskrifast snemma og þurfa lítil lán eru sá hópur sem kemur best út úr samanburði milli gamla og nýja kerfisins og verða ekki fyrir kjaraskerðingu meðan á námi stendur og á afborgunartíma námslána.“
Hér að neðan má sjá samanburð á heildarlánum og afborgunarbyrði námsmanna, annars vegar í núverandi kerfi og hins vegar í nýja kerfinu, þar sem miðað er við að námsmaður stundi fullt nám í fimm ár, ljúki mastersprófi og gæti þess að taka einungis lán upp að framfærsluviðmiði:
Þarna er til dæmis reiknað með að einstætt foreldri með tvö börn muni einungis taka 50 þúsund króna í lán á mánuði, enda muni 65 þúsund króna styrkurinn fleyta viðkomandi nærri framfærsluviðmiðinu ásamt öllum bótum. Þannig er gengið út frá því að einstætt foreldri með tvö börn þurfi aðeins 115 þúsund króna tekjur á mánuði vegna þess að bætur annars staðar úr kerfinu hljóti að nægja heimilinu.
Ef forsendum útreikninganna er breytt og miðað við að stúdentar nýti lánsréttinn sinn til fulls eins og algengast er, kemur í ljós að allir nema einstaklingar í foreldrahúsum munu bera þyngri greiðslubyrði af námslánunum sínum í nýja kerfinu heldur en í núverandi kerfi:
Minnihluti allsherjar- og menntamálanefndar bendir á að samkvæmt umsögn Stúdentaráðs Háskóla Íslands telja einungis um 18 prósent stúdenta námslánin vera nægilega há til þess að framfleyta þeim. „Því telur minni hlutinn þær forsendur sem lagðar eru til grundvallar útreikningum á afborgunarbyrði námslána ekki standast skoðun og vera villandi framsetningu. Fullyrðing um að 90% námsmanna muni hafa minni afborgunarbyrði í nýju lánakerfi er því ekki raunæf. Eðlilegra væri að álykta að 90% stúdenta sem taka full námslán muni hafa hærri afborgunarbyrði að námi loknu,“ segir í álitinu.
Bitni á doktorsnemum, fötluðum og metnaðarfullum
Einnig er gagnrýnt að sett sé hámarkslengd á námstíma:
Kemur það helst niður á þeim sem vilja sækja langt og viðamikið nám, svo sem doktorsnám. Þá er gagnrýnisvert að ekki skuli gert ráð fyrir fullum námslánum til að ljúka tilskildum einingum í doktorsnámi. Yrði frumvarpið að lögum væri hið opinbera þannig með beinum hætti að letja metnaðarfyllstu nemendurna og takmarka möguleika þeirra til að afla sér yfirgripsmikillar menntunar. Um leið væri stuðlað að lægra menntunarstigi í landinu. Þá skal bent á að þessi breyting kemur illa niður á fötluðum einstaklingum og öðrum sem vegna stöðu sinnar geta þurft á meiri tíma að halda til að ljúka námi.
Í breytingartillögu meirihluta nefndarinnar hefur lítillega verið komið til móts við doktorsnema. Þar er lagt til að bætt verði inn grein um að hafi námsmaður fullnýtt rétt sinn til námsaðstoðar geti viðkomandi sótt um undanþágu til LÍN fyrir allt að 60 ECTS einingum til viðbótar.
Aldurstenging í stað tekjutengingar
Minnihluti nefndarinnar athugasemd við að í stað tekjutengingar verði afborganir námslána aldurstengdar:
Skv. 2. mgr. 17. gr. frumvarpsins skal almennur endurgreiðslutími námsláns vera 40 ár en þó skal endurgreiðslu námsláns vera lokið þegar lánþegi nær 67 ára aldri. Þetta þýðir að verulegur munur verður á greiðslubyrði afborgana einstaklings sem útskrifast 37 ára og einstaklings sem útskrifast 27 ára. Engar greiningar liggja fyrir um hvaða áhrif þetta komi til með að hafa en auðsjáanlega er með þessu móti dregið úr möguleika fólks til að afla sér háskólamenntunar eftir að það hefur náð tilteknum aldri. Óvíst er hvort efnaminni einstaklingar muni yfir höfuð hafa fjárhagslegt bolmagn til að sækja nám hafi þeir náð ákveðnum aldri.
Minni hlutinn telur þessa breytingu ásamt öðrum þáttum frumvarpsins stuðla að einsleitni. Fólk er hvatt til að fara snemma í nám, mennta sig til arðbærra starfa og láta grunn- og meistaranám nægja. Þannig yrði námslánabyrðin hlutfallslega minnst. Með því að afnema tekjutengingu afborgana námslána verður efnaminna fólki gert verulega erfitt um vik að sækja sér menntun sem ekki er tryggt að skapi háar tekjur, svo sem listnám. Þá gerir þessi breyting fólki sem verður fyrir áfalli eftir að það hefur náð ákveðnum aldri illa kleift að afla sér menntunar til að skapa sér nýtt lífsviðurværi.
Íbúðakaupendum ívilnað, öðrum ekki
Í frumvarpinu er fest í sessi fyrirkomulag þar sem ábyrgðir á námslánum erfast þrátt fyrir að lánin erfist ekki. Þingmenn minnihlutans telja þetta varhugavert, ekki síst í ljósi þess að í nýja kerfinu séu afborganir af námslánum líklegastar til að hækka hjá þeim þjóðfélagshópi sem hefur minnst milli handanna og er líklegastur til að lenda í greiðsluerfiðleikum. Þá halli víða í frumvarpinu á lántakendur, til dæmis geti LÍN krafist frestunar réttaráhrifa sem eru ívilnandi fyrir lánþega í þágu stofnunarinnar en enginn slíkur möguleiki standi lánþegum til boða.
Loks er bent á að námsstyrkurinn sem veittur verður samkvæmt frumvarpinu kemur til skerðingar á örorkubótum og að félagslegar ívilnanir sé ekki að finna í frumvarpinu. Á þessu sé er þó ein undantekning: veitt er heimild til undanþágu á helmingi endurgreiðslu í allt að fimm ár þegar lánþegi kaupir sína fyrstu íbúð. Hér er þannig um að ræða ívilnun í þágu þeirra sem eiga nægilega fjármuni til að kaupa sér íbúð.
Athugasemdir