Héraðsdómur Reykjavíkur réði lögfræðing með fjölskyldutengsl við dómstjóra í launalaust starf árið 2013. Ráðningin olli titringi meðal starfsmanna réttarins, bæði vegna tengslanna en einnig vegna þess að margir töldu ráðninguna vera á gráu svæði með tilliti til laga og kjarasamninga. Maðurinn, sem er systursonur eiginkonu dómstjórans, var fastráðinn við dóminn í febrúar á þessu ári án þess að starfið væri auglýst laust til umsóknar.
BHM gegn launalausum ráðningum
Lögfræðingurinn sem tengist dómstjóra fékk upphaflega tímabundna ráðningu hjá héraðsdómstólnum án þess að greitt væri fyrir vinnu hans. Bandalag háskólamanna hefur lagst eindregið gegn launalausum ráðningum og krafist þess að greitt sé fyrir starfsnám.
„Við hjá BHM getum auðvitað ekki annað en gert alvarlegar athugasemdir við það þegar fólk er ráðið launalaust til starfa, hvort sem það er hjá einkafyrirtækjum eða hinu opinbera. Slíkt fyrirkomulag stenst hvorki lög né kjarasamninga,“ segir Erna Guðmundsdóttir, lögmaður BHM, í samtali við Stundina.
Athugasemdir