Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra segir að á Íslandi þyki það gagnrýnivert að eiga fjármuni. Eignafólk sé iðulega á milli tannanna á fólki og að það geti verið erfitt. Þetta kom fram í svari hans við fyrirspurn Ólínu Kjerúlf Þorvarðardóttur, þingkonu Samfylkingarinnar, sem bað forsætisráðherra um að útskýra hvað hann hefði átt við þegar hann sagði nýverið í viðtali að það væri greinilega erfitt að eiga peninga á Íslandi.
Að sögn Sigurðar verður að skoða ummæli hans í því ljósi að þau voru látin falla þegar hann „gekk niður stjórnarráðströppurnar samhliða blaðamanni sem spurði spurninga án þess að við værum í formlegu viðtali“. Hann útskýrði ummæli sín með eftirfarandi hætti: „Þar var ég að tala um samfélagið. Vegna þess að það hefur alltaf, í mjög langan tíma, verið mjög á milli tannanna á fólki þeir sem eiga fjármuni. Það getur stundum verið erfitt, það er oft gagnrýnivert á Íslandi.“
Athugasemdir