Grænlenski stjórnarandstöðuflokkurinn Partii Naleraq hefur krafist þess að ríkisstjórn landsins veiti upplýsingar um ýmis atriði tengd uppsjávarveiðiskipinu Tasiilaq, sem nýverið frysti 338 tonn af loðnu ólöglega á Íslandsmiðum.
Tasiilaq er í eigu grænlenska sjávarútvegsfélagsins Royal Pelagic, sem er svo aftur í eigu grænlenska ríkisfyrirtækisins Royal Greenland og Ísfélags Vestmannaeyja. Fyrirspurnin var lögð fram 24. mars síðastliðinn og hefur ríkisstjórnin tíu daga til að svara henni.
Grænlendingar í minnihluta
„Er það ásættanlegt að togari í eigu Royal Pelagic, sem Royal Greenland A/S á hlut í, hafi reynt að landa loðnu þrátt fyrir að hafa ekki leyfi til matframleiðslu né leyfi til að landa loðnu?“ er spurt í fyrirspurn flokksins. Í fyrirspurninni er enn fremur ýjað að því að eitthvað óeðlilegt sé í gangi með starfsmannahald á togurum Royal Pelagic, Tuneq og Tasillaq. Spurt er hvort félagið hafi framvísað launaseðlum til starfsmanna og hvers vegna félagið hafi fengið undanþágu frá lögum um hlutfall grænlenskra starfsmanna á togurunum í ár og í fyrra. Samkvæmt heimildum Stundarinnar er mikill meirihluti sjómanna á þessum skipum íslenskir. Á Tuneq eru aðeins tveir grænlenskir sjómenn, en á Tasiilaq eru þeir fjórir.
Athugasemdir