Það eru ýmis grundvallarágreiningsmál sem ekki verður sátt um. Bítlarnir eða Stones? PC eða Makki? Og í mínu ungdæmi í Skagafirði: Framsókn eða Sjálfstæðisflokkur? Svo er það auðvitað hið árstíðabundna en árvissa ágreiningsmál – kol eða gas?
Ég hef aldrei getað gert almennilega upp við mig hvorn málstaðinn ég á að taka í þessum ágreiningsmálum. Mér fannst Bítlarnir sætari en Stones meira spennandi, ég á Makka heima en nota PC í vinnunni og finn lítinn mun. Ég ólst upp á heimili þar sem bjuggu bæði eldheitir sjálfstæðis- og framsóknarmenn svo að ég ákvað að taka allt aðra afstöðu í lífinu. Og mér finnst gasgrill miklu þægilegra; það er þó eitthvað við kolagrill sem kitlar mig en ég nenni samt aldrei að nota það.
Umdeild áhrif kola
Kolagrill og gasgrill eru ólík á margan hátt en útkoman verður samt meira og minna hin sama. Þeir sem kjósa gasgrill eru í meirihluta og benda á þægindin sem þeim fylgja. Kolagrillafólkið heldur því staðfastlega fram að kolagrillun gefi betra bragð og jafnvel að það sé eina „ekta“ grilleldamennskan, það sé alveg eins hægt að nota ofn eða pönnu eins og að elda á gasgrilli.
Þetta með bragðmuninn er reyndar umdeilt. Weber-fyrirtækið, sem framleiðir bæði vönduð kola- og gasgrill, segist hafa gert fjölda blindra bragðprófana og í ljós hafi komið að fæstir geti greint bragðmun á milli matar sem grillaður er við kol og gas.
Nathan Myhrvold, Microsoft-maðurinn sem fékk brennandi áhuga á matargerð, hefur eytt milljónum dollara í rannsóknir á matarvísindum og unnið til heimsmeistaratitils í barbecue-eldamennsku, segir í bók sinni Modernist Cuisine: „Kolefni er bara kolefni; þegar það brennur skilar það sem slíkt engu bragði í matinn sem er verið að grilla.“ Hann segir að spurningin ætti ekki að vera hvers konar kol eigi að nota, heldur hvort eigi að nota kol yfir höfuð.
Flestir telja líklega að reykurinn sem gefur þetta einkennandi grillbragð komi frá kolunum en það eru ekki kolin sem skapa reykinn, hann verður að mestu leyti til þegar vökvi sem drýpur af matnum sem verið er að grilla (safi, fita og marínering) lendir á kolunum, brennur og gufar upp og reykurinn og gufan leika svo um matinn og þéttist á yfirborði hans. Flest
Athugasemdir