Hleypt var inn í hollum í nýuppgerða verslun Elko á Granda í morgun en í tilefni opnunarinnar voru ýmsar vörur á sérstöku tilboði í takmörkuðu upplagi. Magnús Torfi Magnússon, verslunarstjóri Elko á Granda, segir í samtali við Mbl.is að röð hafi byrjað að myndast upp úr klukkan fimm í morgun. Á sama tíma og heppnir viðskiptavinir streymdu út úr verslun Elko með glænýja síma, sjónvörp og þvottavélar kynnti Íslandsbanki nýja þjóðhagsspá sem spáir kaupmáttaraukningu upp á 9,1 prósent í ár, sem verður mesta hækkun kaupmáttar launa um árabil.
Þenslan nær hámarki á næsta ári
Í þjóðhagsspánni er því spáð að hagvöxturinn verði 5,4 prósent á þessu ári. „Sem er hraðasti hagvöxtur sem við höfum séð hér á landi í heilan áratug og er borinn uppi af auknum vexti í innlendri eftirspurn, neyslu og fjárfestingu, og reyndar einnig framhaldi af vexti í útflutningi sem hefur verið burðarmátturinn í þeim hagvexti sem hér hefur staðið frá árinu 2010. Á næsta ári verður einnig dágóður hagvöxtur að okkar mati eða fjögur prósent og þá mun þenslan ná hámarki í hagkerfinu. 2017 verður þannig í rauninni hið nýja 2007, vonandi án þynnkunnar,“ sagði Ingólfur Bender, forstöðumaður Greiningar Íslandsbanka, á kynningarfundi í morgun. Hann bætti því við að sýn greiningardeildarinnar væri sú að hagkerfið gæti lent „tiltölulega mjúklega“ árið 2018 og að ekkert viðlíka hruninu 2008 væri í kortunum.
„2017 verður þannig í rauninni hið nýja 2007, vonandi án þynnkunnar.“
„Þetta uppsveiflutímabil er sérstakt fyrir þær sakir að við erum að sjá hagvöxt á mann, ef þessi spá gengur eftir, vera í átta ár samfleytt. Við höfum aldrei séð, í sögu lýðveldisins að minnsta kosti, hagvöxt á mann yfir svo langan tíma,“ segir Ingólfur. Hann segir tvennt koma til; í fyrsta lagi hafi verið gríðarlegur slaki á hagkerfinu þegar það byrjaði að vaxa árið 2010 og í öðru lagi hafi hagvöxturinn verið tiltölulega hóflegur á þessu tímabili miðað við fyrri uppsveiflur. „Hagkerfið hefur þannig ekki keyrst upp með sama offorsi og við höfum séð oft áður.“
„Ísland alltaf best í heimi“
„Ísland er alltaf best í heimi,“ sagði Ingólfur glettinn þegar hann setti upp glæru af hröðum hagvexti Íslands í alþjóðlegu ljósi. „Þegar maður ber saman þessa spá okkar, 5,4 prósenta hagvöxt á þessu ári og fjögur prósent á næsta ári, við þessa spá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fyrir þá iðnríki er að hagvöxturinn verður hvergi annars staðar, í neinu öðru iðnríki, meiri á þessum tveimur árum en hér, ef þessar spár ganga eftir.“
Athugasemdir