Skipstjóri hvalaskoðunarbátsins Faldurs, Pétur Olgeirsson, er einn eftir um borð í bátnum en fyrr í dag kom upp reykur í vélarúmi skipsins. Það var til þess að allir farþegar voru færðir í björgunarbáta. Eiginkona Pétur, Ása Dagný Hólmgeirsdóttir, var að skima eftir manni sínum við bryggjuna á Húsavík þegar Stundin ræddi við hana. „Ég vildi bara sjá að allt væri í lagi,“ segir Ása. Hún segir að það hafi verið reykur í vélarúminu sem varð til þess að skipið var rýmt.
Að hennar sögn er öll hætta liðin hjá en hún segir þó að sér hafi verulega brugðið þegar Pétur hringdi í hana og sagði henni að björgunarsveitarmenn væru um borð. „Þetta bjargaðist vel. Það reyndist vera reykur í vélarúmi. Hann er einn eftir um borð og þetta gengur allt snurðulaust. Ég er núna niðri á bryggju að kíkja eftir honum. Pétur er mjög reyndur skipstjórnarmaður og kann sitt fag,“ segir Ása. Að hennar sögn fóru farþegarnir í skoðunarferð með öðrum bát eftir þeim að hafði verið bjargað.
Báturinn er á vegum hvalskoðunarfélagsins Gentle Giants en um tuttugu og fjórir ferðamenn voru um borð samkvæmt frétt Vísis. Samkvæmt Ásu er nú verið að draga bátinn í land. „Skipstjórinn varð var við reyk. Málið er nú leyst,“ segir Stefán Guðmundsson, eigandi Gentle Giants, í samtali við Stundina.
Athugasemdir